Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 17:49:45 (477)

1998-10-15 17:49:45# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[17:49]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta er alveg ljóst að þessi gagnagrunnur er ekki eitthvert statískt fyrirbæri. Hann er ekki bara eitthvað sem er búið til klukkan þetta á þessum degi. Að sjálfsögðu á að bæta upplýsingum í hann reglulega og uppfæra hann. Það er allur galdurinn við þennan gagnagrunn. Annars væri hann einskis nýtur. Hann væri kannski nýtanlegur aðeins í upphafi út af einhverjum sérstökum rannsóknum. En aðalkosturinn við hann er sá að það á alltaf að bæta nýjum og nýjum upplýsingum inn og sjá hvernig málin þróast, fylgjast með heilli þjóð. Það er kosturinn við hann. Og það á að vera hægt að láta upplýsingarnar rekja sig niður eftir þessu dulkóðunarkerfi þannig að þær hitti á réttan einstakling en það er ekki hægt að rekja þær til baka. Það er hægt að láta upplýsingarnar rata úr réttri sjúkraskrá á réttan aðila hvenær sem er í framtíðinni en ekki til baka. Það er ekki hægt að finna sjúklinginn. Það er mjög spennandi að finna hann. Segjum að einhver sjúkdómur finnist hjá einhverjum manni og vitað er hvernig á að lækna hann en enginn getur fundið hann til baka, það er ekki mögulegt að hjálpa honum. Það er gallinn við alla þessa dulkóðun. En þetta er gert til að koma upp þessum gagnagrunni, þurfa ekki að fá upplýst samþykki og til þess að persónuverndin sé trygg, þá er ekki hægt að rekja neitt til baka. Ég tók dæmi af því áðan ef einhver vildi vera með í grunninum en læknirinn ekki, þá þarf viðkomandi að fara reglulega með ljósrit af sjúkraskrá sinni til þess að grunnurinn sé lifandi og eðlilegur. Það yrði til að æra óstöðugan að gera það. Það gengur ekki. Ég legg því til að heilbr.- og trn. skoði það að gera rétt sjúklings hærri en rétt læknis í sambandi við það að vera með í grunninum.