Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 17:53:02 (479)

1998-10-15 17:53:02# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[17:53]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér sýnist að það sé tiltölulega auðvelt að selja, svo ég noti kaupmannsmál, hv. varaformanni heilbr.- og trn. svona vísindahugmyndir og ,,science fiction`` hugmyndir. Í máli hv. þm. kom fram að um væri að ræða stórkostlegt tækifæri til að bæta heilsu manna og var ítrekuð sú staðhæfing að í þessum miðlæga gagnagrunni felist stórfellt tækifæri til þess. Nú vil ég ekki útiloka að menn geti ekki fikrað sig með varúð áfram til hagsbóta í heilbrigðislegu tilliti að einhverju marki í gegnum genarannsóknir og erfðafræðilegar rannsóknir, líftækni kannski í einu orði sagt. En ég held að það sé mjög mikið gáleysi að ætla sér að alhæfa með þeim hætti að í þessum gagnagrunni og viðlíka rannsóknum og tækjum felist þetta stórfellda tækifæri. Ég er þeirrar skoðunar að þessi heimur hafi verið gylltur allt of mikið fyrir almenningi og það er augljóst hver mótorinn er á bak við slíka gyllingu. Hann er hagsmunatengdur, ekki síst, þ.e. að fá fjármagn til rannsókna til þess að drífa þetta gangverk áfram en menn spyrja ekki hvort við eigum að fara í þessa vegferð með þeim aðferðum sem verið er að tala um, að afla upplýsinga um erfðagóss mannsins sem fyrirbyggjandi þátt. Menn standa fljótlega frammi fyrir því t.d. hvaða upplýsingar á að veita fólki um þá forskrift sem er að finna í erfðagóssi þess. Hvað er rétt að veita fólki af slíkum upplýsingum? Hvar ætla menn að stöðva sig af í þeim efnum? Ég vara því mjög við þessari staðhæfingu um stórfellt tækifæri til að bæta heilsu manna. Göngum hægt um þær dyr.