Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 17:56:41 (481)

1998-10-15 17:56:41# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[17:56]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var að skýra það út fyrir hv. þm. að við eigum að ganga hægt um þessar dyr. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé sjálfgefið að búa til þennan miðlæga gagnagrunn og samkeyra við hann ættfræðiupplýsingar um Íslendinga í voninni um að ná þessu fram sem hv. þm. hefur greinilega mikla trú á. Ég efast um að það sé eðlilegt að veita heimild til þess að safna öllum upplýsingum um ættfræði Íslendinga í eitt hólf til samkeyrslu við aðrar upplýsingar, heilsufarsupplýsingar um þjóðina eins og verið er að gera. Ég held að formaður og varaformaður heilbr.- og trn. ættu að fara vandlega yfir tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins, nr. R (97) 18, um söfnun og vinnslu upplýsinga í tölfræðilegum tilgangi og átta sig á þeirri leiðsögn sem þar er að finna og þeim viðvörunum sem þar er að finna og ég efast um að það sé í anda þeirra tilmæla að safnað sé á einn disk upplýsingum um ættfræði Íslendinga í þeim tilgangi að keyra þær saman í miðlægum gagnagrunni við heilsufarsupplýsingar fyrir alla þjóðina. Ég vara líka sterklega við þeim draumsýnum sem reynt er að hampa og hv. þm. hefur tekið upp að í þessu felist stórkostlegt tækifæri til að bæta heilsu manna. Ég hef fyrirvara um það. Ég held að þetta sé allt of sterkt til orða tekið. Menn eiga að fara af varkárni og varúð í umgengni við þá möguleika sem vissulega eru þarna til staðar en við eigum ekki að gleypa þá hráa.