Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 18:36:36 (487)

1998-10-15 18:36:36# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[18:36]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég skil nú betur hvers vegna spurningin var svo orðuð. Hún var á þeim forsendum að nauðsynlegt væri að geta rakið sig til baka eftir grunninum og við henni eru svör. Ef upplýsingarnar úr grunninum benda til þess að til sé ákveðinn hópur manna sem eitthvað væri hægt að gera fyrir en ekki hafi fyrr verið hægt að sinna þá eru aðrar aðferðir, hugnanlegri og mannlegri til að komast í tengsl við þennan hóp. Það væri að gera það í gegnum þá sérfræðinga sem starfa í sjúkrastofnunum á þessu sviði og í gegnum lækna sérhvers einstaklings. Þessi aðferð er ekki langsótt. Þegar vandamálið hefur verið þrengt um ákveðinn hóp, þá vita heimilislæknar og sérfræðingarnir mjög vel hvaða hópur á í hlut. Þá er hægt að nálgast þá en ekki með því að rekja sig til baka eftir grunninum.

Það stendur deila um það, sem ég treysti mér ekki til að gerast dómari í, hvort hægt sé að búa til dulkóðunarkerfi sem ómögulegt sé að rekja til baka, alla vega ekki lengra en til ákveðins hóps, eða hvort hægt sé, í öllum tilfellum með mikilli fyrirhöfn, að rekja sig alla leið til einstaklinganna. Ég treysti mér ekki til að hafa skoðun á því máli. Í lokin vil ég hins vegar leggja áherslu á að ef við förum að líta á dulkóðaðar upplýsingar sem persónuupplýsingar, þá munum við lenda í miklum erfiðleikum.