Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 18:40:53 (489)

1998-10-15 18:40:53# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[18:40]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi að ýmislegt í þeim samþykktum sem ég vitnaði hér í rækist á við gagnagrunninn. Ég tek eftir því að hv. þm. hefur ekki nefnt eitt einasta atriði. Ég vil gjarnan heyra þessi atriði nefnd. Ég vil fá að sjá hvað það er í þessum samþykktum sem rekst á við gagnagrunnsfrv. Í raun og veru má segja að meginlínan sé að gagnagrunnsfrv. sé í fullu samræmi við þessar samþykktir.

Síðan er spurt hvort þarna komi ekki upp hætta á misnotkun. Þá verð ég að segja sem svo: Að hve miklu leyti eykst hættan á misnotkun heilsufarsupplýsinga með tilkomu miðlægs gagnagrunns? Ef þessar upplýsingar eru svo mikils virði fyrir þá sem vilja brjóta lög og notfæra sér þessar upplýsingar ólöglega, eru þá ekki til leiðir til þess að komast í þessar upplýsingar sem jafnvel kosta minna en að verja því til að brjóta kóðann? Þessar upplýsingar eru fyrir hendi í sjúkrastofnunum, sumar í Tryggingatofnun ríkisins og það er hægt að komast í þær þó að þeir aðilar sem þar vinna gæti vel að þeim. Það er hægt að komast yfir þessar upplýsingar. Ef það er svona mikils virði að komast inn í þetta, er þá ekki ódýrara að brjótast inn í þessar upplýsingar þar sem þær eru?