Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 18:44:10 (491)

1998-10-15 18:44:10# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[18:44]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Í raun er þarna um að ræða fullyrðingu gegn fullyrðingu. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fullyrðir að minni hætta sé á að brotist verði inn í dreifða gagnagrunna heldur en miðlægan gagnagrunn. Ég hef ekki heyrt þetta rökstutt. Ég hef hins vegar heyrt tölvusérfræðinga tala um að auðveldara sé að verja upplýsingar í miðlægum gagnagrunni, vel dulkóðuðum miðlægum gagnagrunni, en í dreifðum gagnagrunni. Þeir segja líklegra að menn séu reiðubúnir til að verja miklu fé til þess að dulkóða þessar upplýsingar í miðlægum gagnagrunni heldur en í dreifðum gagnagrunnum. Að sjálfsögðu er alveg rétt hjá hv. þm. að þetta ber að skoða, ég er alveg sammála því. Ég hef ekki á móti því að farið verði nákvæmlega yfir það að hve miklu leyti þetta frv. um miðlægan gagnagrunn stenst viðmiðanir í samþykktum Evrópuráðsins, bæði í hinum miklu sáttmálum sem við höfum gert um þessi mál og líka í ráðleggingum ráðherraráðs Evrópuráðsins. Ég tek undir það.