Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 18:45:23 (492)

1998-10-15 18:45:23# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[18:45]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það eru fjölmörg atriði sem ég mundi vilja koma að í þessu andsvari en hluta þess mun ég taka fyrir í ræðu minni sem verður væntanlega ekki fyrr en í fyrramálið, m.a. það sem sneri að upplýstu samþykki.

Samkeyrsla upplýsinga, sem hv. þm. kom inn á áðan, er lykilatriði í allri umræðu um persónuvernd. Ekki þarf annað en að lesa lögin um meðferð og skráningu persónuupplýsinga til að sjá að samkeyrsla er alltaf litin öðrum augum en upplýsingar sem eru dreifðar. Það er lykilatriði að talin er sérstök ástæða til að að tryggja persónuverndina betur þegar um samkeyrslu er að ræða.

Varðandi það að þetta séu ekki persónugreinanlegar upplýsingar sem öll þessi hugmynd byggir á í raun og veru og ef hægt er að hrekja það að þetta séu ekki persónugreinanlegar upplýsingar þá tel ég að hugmyndin sé fallin um sjálfa sig.

Hv. þm. kom áðan inn á að það væri ekki rétt túlkun sem hefði verið haldið fram, að þetta frv. stæðist ekki ákvæði alþjóðasáttmála hvað þetta varðar. Þetta snýst nefnilega um það. Eru þetta persónugreinanlegar upplýsingar samkvæmt skilningi þessara sáttmála eða ekki? Um það deila sérfræðingar. Fjölmargir sérfræðingar hafa lýst því yfir, m.a. þeir sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vitnaði til, þeir vara við því, þeir telja sérstaka ástæðu til að vara við því. Þeir eru mjög margir sem hafa þetta frv. undir höndum á ensku og hafa kynnt sér það, og vara við því að þarna sé ekki nægilega vel staðið að því að gera upplýsingarnar persónugreinanlegar.

Þess vegna er ekkert skrýtið þó að menn séu með efasemdir um það að öll þessi hugmynd standist í raun og veru þá alþjóðasáttmála sem við höfum skrifað upp á og teljum okkur skuldbundin af. Það eru ekki bara þeir sérfræðingar sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson nefndi --- ég vitnaði í bréfið áðan --- það eru líka aðrir sem hafa komið að þessu máli og tjáð sig um þetta.

Það er því full ástæða til þess að taka það með hæfilegum alvarleika að þessar upplýsingar séu ekki persónugreinanlegar.