Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 18:51:08 (495)

1998-10-15 18:51:08# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[18:51]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Það er nú svo með þessar samþykktir að þær eru að vísu skrifaðar á samansúrruðu máli en engu að síður er hægt að lesa þetta og kynna sér þetta. Það eina sem nauðsynlegt er að hafa í huga þegar menn lesa samþykktir af þessu tagi er að það þarf að lesa þær í heild. Plöggin gefa ekki rétta mynd nema tekið sé tillit til allra undantekninga og alls þess svigrúms sem búið er til í þessum samþykktum.

Ég er sammála því að auðvitað þarf að skoða þetta mjög rækilega. En eitt vil ég þó segja í lokin, að það er --- nú hefur víst hv. þm. ekki aftur andsvararétt --- afar mikilvægt að nefndin skoði hvaða afleiðingar það hefur fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi og fyrir íslensk vísindi ef við göngum svo langt að líta svo á að dulkóðaðar upplýsingar séu persónuupplýsingar. Því að þá held ég að menn muni lenda í mjög miklum erfiðleikum og búið sé að þrengja svo bæði að stjórnvöldum til að fara með sínar tölfræðilegu athuganir en einnig að vísindunum að það sé óviðunandi. Ég vil þá biðja hv. nefnd sem fjallar um þetta að skoða líka afleiðingar þess ef menn færu að þrengja rammann þarna miklu meira en alþjóðlegar samþykktir gera ráð fyrir.