Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 11:12:58 (498)

1998-10-16 11:12:58# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[11:12]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Tilvist samhæfðs gagnagrunns á heilbrigðissviði ógnar öðrum vísindamönnum sem starfa á sömu sviðum aðallega af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi, eins og ég reyndi að útskýra áðan, vegna þess að vitneskja hugsanlegra samstarfsaðila sem annars mundu vilja fjármagna t.d. rannsókn sem Krabbameinsfélagið byggði á sínum litla krabbameinsgrunni væri ekki jafnsjarmerandi fjárfesting meðan einn leyfishafi hefur hlotið náð fyrir augum ríkisstjórnarinnar og hefur grunn með öllum upplýsingum um íslensku þjóðina og er að gera kannski sömu rannsókn. Þess vegna ógnar þetta öðrum vísindamönnum. Auk þess er gert ráð fyrir því að aðgangur vísindamanna að grunninum sjálfum sé háður því að þeir séu ekki í samkeppni, að hann sé ekki að vinna á sama sviði og rekstrarleyfishafi. Forskotið er augljóst og ógnar þar af leiðandi hagsmunum annarra.

Til að svara seinni spurningunni verð ég að biðja þingmanninn að koma upp aftur svo ég geti átt færi á að svara honum í seinni athugasemd.