Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 11:15:04 (500)

1998-10-16 11:15:04# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[11:15]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Krabbameinsfélagið er að sjálfsögðu samkeppnishæft að því leyti til að þar starfa jafnfærir vísindamenn og hjá Íslenskri erfðagreiningu. En á meðan það hefur bara lítinn grunn en eitthvert, ja ég vil segja eitthvert útvalið fyrirtæki hefur stærri grunn með meiri upplýsingum þá er það meira aðlaðandi fjárfesting.

Hvað varðar einkaleyfið og samlíkingu hv. þm. við einkaleyfi á lyfjum og hugverkum þá ógnar það ekkert vísindafrelsinu á neinn hátt. Þar er um það að ræða að það er búið að setja einhverja ákveðna þekkingu og vinnu og úr því verður eitthvert ákveðið hugverk. Það eru bara til lög um það sem heita einkaleyfalög. Þau leyfa ákveðið forskot sem er varið með einkaleyfi, og það er allt annars eðlis, það ógnar engum öðrum vegna þess að þar er verið að vernda eitthvað sem búið er að búa til.