Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 11:17:17 (502)

1998-10-16 11:17:17# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[11:17]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég fullyrti ekki að þessar upplýsingar væru persónugreinanlegar, ég sagði að mikil hætta væri á því. Það er það fyrsta.

Í öðru lagi hvað varðar upplýst samþykki og líka það sem ég hef komið inn á sem er að krafist sé samþykkis vísindasiðanefndar fyrir ákveðinni rannsóknaráætlun sem þarf að liggja fyrir áður en er farið er út í rannsóknir, það er meginregla. Upplýsta samþykkið er meginregla þegar verið er að vinna með persónuupplýsingar. (Gripið fram í.) Það er meginreglan.

Hvað varðar upplýsingar sem verið er að vinna með, sem ekki er fengið upplýst samþykki fyrir, þá er fengið leyfi heilbrigðisstofnunar eða þess læknis sem safnaði þeim. Það er þá væntanlega byggt á trúnaðarsambandi þeirrar stofnunar sem sjúklingurinn sækir til og hún ber þá ábyrgðina á því að afhenda þær frá sér.

Hérna erum við að gefa blankótékka á að afhenda allar upplýsingar og að þær séu notaðar í hverjum þeim tilgangi sem rekstrarleyfishafa hugnast. Mér finnst það bara einfaldlega allt of opið, allt of opinn og óútfylltur tékki.