Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 11:22:47 (508)

1998-10-16 11:22:47# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[11:22]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei heyrt tölvunefnd gefa einhvern stimpil á þetta frv. (Gripið fram í: Á fundi heilbrn.) Nei, hún gerði það ekki, ég sat á þessum fundum, hv. þm., og hún gaf engan stimpil á það. Hún sagði að hugsanlega væri hægt að tryggja þessa persónuvernd með miklum tilkostnaði og það vantaði mikið upp á að tölvunefnd sæi möguleika á því eins og starfsháttum hennar er háttað í dag.

En það er annað atriði í þessu. Það eiga nefnilega sömu rök við um þetta eins og mjög víða annars staðar í samfélaginu og ég spyr bara: Treystir þetta fyrirtæki sér ekki út í frjálsa samkeppni um gerð gagnagrunna og starfsrækslu? Af hverju treysta önnur fyrirtæki sér út í það? Fyrirtæki sem telja sig geta fjármagnað það, eins og Urður, Verðandi, Skuld. (Gripið fram í.) Nei, dreifðan gagnagrunn, og telja sig geta náð fram sama árangri. Virtir vísindamenn eru á bak við þá hugmynd. Það eru líka viðskiptamenn með sérfræðiþekkingu á viðskiptasviðinu sem telja að þetta sé alveg eins mögulegt.

Það er vissulega rétt að skilvirknin er ekki eins mikil. En ef við getum tryggt öryggið betur með þessari hugmynd og menn telja sig geta fjármagnað hana, af hverju ekki að reyna það?