Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 12:46:01 (525)

1998-10-16 12:46:01# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[12:46]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki bara það að sá sem vinnur þetta fyrst setji feiknarlega fjármuni í að skilgreina hvað þarf að setja upp heldur er líka reiknað með því að hann kosti skráningu á gögnum langt aftur í tímann, jafnvel 40--50 ár aftur í tímann, sem að mjög góðu mati Stefáns Ingólfssonar er metið á 2.700 ársverk. Þegar búið er að skrá allar þær upplýsingar sem sá fyrsti borgar þá liggja þær fyrir. Þá geta aðrir farið að nota nákvæmlega sömu upplýsingar sem búið er að skrá og setja á tölvutækt form. Núna eru þær bara geymdar í möppum og ekki nokkur leið að nálgast þær. Þarna er allt komið upp á borðið og þeir sem á eftir koma, sporgöngumennirnir sem koma á eftir frumkvöðlinum, geta byggt upp skrá á engum tíma, þurfa ekki að leggja í þennan feiknakostnað. Þetta er meginkostnaðurinn í þessu. Það er ekki hægt að hafa höfundarrétt á þeim gögnum sem hafa verið skráð, úr því að vera í möppum.