Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 14:23:46 (534)

1998-10-16 14:23:46# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[14:23]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins bregðast við og þakka fyrir þessa ræðu og fleiri sem fluttar hafa verið í dag. Hv. þm. talaði um að enn þá vantaði siðfræðina. Það kann vel að vera og þó er skírskotunin mjög augljós. Það á að skrásetja alla heimsbyggðina nánast og fari nú hver til sinnar borgar í sína ætt til þess að láta af hendi gögnin um sjálfa sig.

Hvað varðar siðfræðina þá eru flest mál sem þingið afgreiðir siðferðilegs eðlis. Mér er t.d. þagnarskylda og trúnaður heilagt mál og ég er klár á því líka að grundvöllur árangurs lækninga og meðferðar er trúnaður, þagnarskylda og að ekki sé misfarið með mikilvægar upplýsingar.

Ég vil benda á að málefnaleg vinna er að hefjast núna á hinu háa Alþingi um þetta mál. Fram undan er þingleg meðferð í hv. heilbr.- og trn. og ég treysti því að hún hafi það sem veganesti í sinni vinnu sem hér hefur komið fram í umræðunni og allt það sem búið er að afla af gögnum og heimildum í málinu, en síðan þegar kemur til 2. umr. verði virkilega, málefnalega, siðferðilega o.s.frv. tekið á þessu máli. Það dugir auðvitað ekki að samþykkja neitt út á það þótt óvarlega hafi verið farið með slíkar trúnaðarupplýsingar fyrr á heilbrigðisstofnunum. Ég hvet til þess að nefndin fari mjög varlega í sínu starfi og málefnalega.