Dreifðir gagnagrunnar á heilbrigðissviði og persónuvernd

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 16:30:04 (545)

1998-10-16 16:30:04# 123. lþ. 12.2 fundur 97. mál: #A dreifðir gagnagrunnar á heilbrigðissviði og persónuvernd# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[16:30]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um dreifða gagnagrunna á heilbrigðissviði og persónuvernd. Flutningsmenn að þessu máli ásamt mér eru hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, Árni Steinar Jóhannsson og Ögmundur Jónasson. Öll erum við starfandi í þingflokki óháðra á Alþingi og það má því segja að þetta mál sé lagt fram af þingflokki óháðra. Við erum algerlega samstiga í sambandi við framlagningu þessa máls eins og það birtist hér og höfum auðvitað í umræðunni fram að þessu hvert á sinn hátt talað út frá okkar viðhorfum til þessa máls eins og það birtist í þeirri tillögu sem ég ætla að kynna, en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að í stað þess að stefna að miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði verði ríkisstjórninni falið að láta fara fram vandaða úttekt á dreifðum gagnagrunnum með það að markmiði að nýta megi þá betur en nú er gert í þágu rannsókna og bættrar heilbrigðisþjónustu að teknu tilliti til réttinda sjúklinga og ákvæða um persónuvernd. Kannað verði jafnframt hvernig tengja megi saman dreifða gagnagrunna til að auðvelda afmarkaðar og vel skilgreindar rannsóknir og hvernig um þurfi að búa til að tryggja persónuvernd. Sé talið nauðsynlegt að breyta lögum á þessu sviði verði gerðar tillögur þar að lútandi.

Við vinnu að úttektinni verði meðal annars gert ráð fyrir:

1. Að ríki, rannsóknastofnanir og félög sem standa fyrir rannsóknum á heilbrigðissviði eigi framvegis sem hingað til aðild að dreifðum gagnagrunnum.

2. Að upplýsingar úr sjúkraskrám séu varðveittar þar sem þær verða til og ekki verði settur upp miðlægur gagnabanki.

3. Að leitað verði upplýsts samþykkis sjúklinga vegna skráningar upplýsinga í dreifða gagnagrunna vegna rannsókna, eftir því sem við á og unnt er, sbr. tilskipun 95/46/EC, og í hvívetna gætt ákvæða um persónuvernd.

4. Að sérstaklega verði athugað um réttarstöðu þeirra sem sviptir hafa verið sjálfræði eða eru vegna veikinda ófærir um að svara til um skráningu, sem og um heimildir til skráningar upplýsinga um þá sem eru látnir.

5. Að tryggður verði réttur ófullveðja barna til að afturkalla er viðkomandi verður fullveðja heimildir sem foreldrar kunna að hafa veitt til skráningar upplýsinga um viðkomandi.

6. Að athugað verði hvernig koma megi í veg fyrir að upplýsingar úr gagnagrunnum séu misnotaðar af hálfu tryggingafélaga og atvinnurekenda.

7. Að ákvæði alþjóðasamninga og samþykkta á þessu sviði, sem Ísland er aðili að, séu virt í hvívetna, sem og mannréttindaákvæði.

8. Að mörkuð verði stefna um hvort, og þá hvernig, veita eigi aðgang að dreifðum og hugsanlega samtengdum gagnagrunnum til rannsókna og annarra vel skilgreindra verkefna og um gjaldtöku í því sambandi.

9. Að kannaðir verði kostir þess að nýta upplýsingar úr dreifðum og hugsanlega samtengdum gagnagrunnum til að auka gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu.

10. Að tekið verði, eftir því sem við á, tillit til stefnumörkunar um söfnun, vörslu og meðferð lífsýna úr mönnum, sem og laga um réttindi sjúklinga.

11. Að komið verði á skipulegri fræðslu til almennings um erfðatækni og eðli og starfrækslu gagnagrunna á heilbrigðissviði, ekki síst um varhugaverða þætti, svo og um skyldur og trúnað heilbrigðisstarfsstétta gagnvart sjúklingum og um réttindi sjúklinga og persónuvernd.

12. Að tekið verði, eftir því sem við á, mið af ,,stefnumótun í upplýsingamálum innan heilbrigðiskerfisins``, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið gaf út árið 1997 (rit 1, 1997).

Við úttektina verði haft náið samráð við tölvunefnd og vísindasiðanefnd, sem og þá aðila sem þegar starfrækja gagnagrunna á heilbrigðissviði, þar á meðal erfðafræðinefnd, Krabbameinsfélag Íslands og Hjartavernd. Þá verði og haft samráð við Háskóla Íslands og aðrar rannsóknastofnanir og leitað upplýsinga um fyrirkomulag og þróun hliðstæðra mála í nágrannalöndum austan hafs og vestan.

Skýrsla um úttektina og æskilegar lagabreytingar verði lögð fram á næsta reglulegu Alþingi til kynningar og umræðu.``

Þetta er tillaga okkar í orðanna hljóðan. Eins og menn taka eftir er hún yfirgripsmikil. Meginatriði hennar er það að við vísum frá hugmyndinni um miðlægan gagnabanka. Í staðinn hvetjum við ríkisstjórnina til þess að gera vandaða úttekt á dreifðum gagnagrunnum og möguleikum til að nota þá í vísindaskyni og til rannsókna og annarra þátta, einnig til endurbóta í heilbrigðiskerfinu almennt séð, að teknu fullu tilliti til ákvæða um persónuvernd sem er grunnurinn sem við leggjum að sjálfsögðu alla áherslu á að sé virtur í hvívetna.

Í sambandi við undirbúning þessa máls höfum við að sjálfsögðu fylgst náið með þeirri umræðu sem fram hefur farið. Sá sem hér talar lýsti á sl. vori yfir andstöðu við það frv. sem þá kom fram um miðlæga gagnagrunna --- það var víst í fleirtölu á þeim tíma --- og þó að ég væri reiðubúinn að skoða það mál út frá öllum hliðum leist mér ekki á blikuna eins og það var lagt fyrir þegar það kom til 1. umr. Síðan hef ég leitast við að afla vitneskju og heimilda um þessi efni, ekki aðeins hér innan lands heldur líka erlendis frá. Ég gerði mér m.a. ferð til Noregs í þessu sambandi, að vísu einnig til að afla upplýsinga um marga þætti umhverfismála og heimsótti í því samhengi norska heilbrigðisráðuneytið og fékk þar gagnlegar upplýsingar og lýsingu á því hvernig tekið er á þessum málum af hálfu Norðmanna, hvernig þeir eru að fikra sig áfram til mótunar laga og reglna um gagnagrunna á heilbrigðissviði. Til fróðleiks létum við fylgja, sem eitt af mörgum fylgiskjölum með tillögu okkar, upplýsingar í íslenskri þýðingu úr sérstöku nefndaráliti stjórnskipaðrar nefndar sem vann að stefnumótun fyrir hönd stjórnvalda um aðgang að heilsufarsskrám. Ég vænti þess að þessar upplýsingar séu til fróðleiks en ég tek það skýrt fram að við höfum ekki tekið út af fyrir sig afstöðu til þeirra í einstökum atriðum, ekki frekar en norsk stjórnvöld sem hafa enn ekki afgreitt eða lagt fyrir tillögu að lögum á þessu sviði heldur eru að skoða málið að sjálfsögðu vandlega og mættu íslensk stjórnvöld þar margt af læra.

Í greinargerð með tillögu okkar færum við fram ljós rök fyrir máli okkar hvers vegna við erum andvíg miðlægum gagnagrunnum og ég get vitnað til örfárra atriða í máli okkar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Meginannmarkar frumvarps ríkisstjórnarinnar felast í allsendis ófullnægjandi persónuvernd og áhættu sem fylgir miðlægum gagnagrunni, óljósum og óskilgreindum ákvæðum um hvað í hann verði sett, stærð hans og fyrirhugaðri samkeyrslu við erfða- og ættfræðiupplýsingar, og síðast en ekki síst viðskiptalegum forsendum fyrir uppbyggingu hans og rekstri. Þá verður vísindamönnum mismunað gróflega að því er varðar aðgengi að upplýsingum úr grunninum. Verði frumvarpið að lögum getur verið skammt í að ,,stóri bróðir`` berji að dyrum á mörgum heimilum á Íslandi.``

Jafnframt því að hafna miðlægum gagnagrunnum á heilbrigðissviði eins og fyrir er lagt þá erum við opin fyrir því að sá möguleiki verði athugaður að teknu tillit til ýtrustu ákvæða um persónuvernd að tengja saman upplýsingar úr dreifðum gagnagrunnum í skilgreindum afmörkuðum þáttum samkvæmt mótuðum leikreglum til að auðvelda rannsóknir, að sjálfsögðu að fengnu samþykki þeirra sem eiga að leggja þar til upplýsingar úr sjúkraskrám. Við erum með því opin fyrir því að það mál verði skoðað nánar og ég bið menn um það, sem eru að halda því fram að þeir sem ekki gleypa hugmyndir ríkisstjórnarinnar og tillögur um miðlæga gagnagrunna séu að loka á nýtingu heilsufarsupplýsinga í afmörkuðum tilvikum og samkvæmt eðlilegum leikreglum að teknu tilliti til persónuverndar.

Við fjöllum í greinargerð okkar með tillögunni um kosti dreifðra gagnagrunna og þeir eru margir. Þar má nefna, virðulegur forseti, að með dreifðum grunnum yrði ekki um stórfelldan flutning að ræða á gögnum frá heilbrigðisstofnunum í miðlægan gagnagrunn heldur yrðu upplýsingar í vörslu stofnana þar sem þeim er safnað. Með þessu yrði trúnaðarsambandi læknis og sjúklinga í engu spillt.

Ég vil vekja athygli á nokkrum af þeim áhersluþáttum sem við nefnum í sambandi við vandaða úttekt um þessi efni. Ég tek sem dæmi lið nr. 6 sem ekki hefur verið mikið ræddur hér en hann er um það að athugað verði sérstaklega hvernig koma megi í veg fyrir að upplýsingar úr gagnagrunnum séu misnotaðar af hálfu tryggingafélaga og atvinnurekenda. Þessi þáttur málsins hefur eðlilega verið áhyggjuefni þeirra, m.a. fulltrúa í samtökum launafólks, sem hafa verið að skoða þetta mál vitandi um það hvernig upplýsingar úr slíkum grunnum hafa verið misnotaðar gróflega erlendis. Ekki síst er mikil umræða um það og liggur mikið safn upplýsinga fyrir um slíka misnotkun í Bandaríkjunum þar sem tryggingafélögin hafa haft úti allar klær til að nálgast upplýsingar um heilsufar þeirra sem leita trygginga. Til þess að undirstrika hversu stórt mál hér er á ferðinni og mál sem fyllsta ástæða er til að skoða á Íslandi einnig er sú staðreynd að í ágústmánuði sl. setti norska ríkisstjórnin á fót sérstaka stjórnskipaða nefnd til að fara ofan í þessi mál og gera tillögur um hvernig megi reisa rönd við í sambandi við þessi efni.

Hið sama gildir varðandi þá sem standa höllum fæti í samfélaginu, þá sem eru atvinnulausir eða eru bótaþegar o.s.frv. Allir slíkir geta átt undir högg að sækja vegna þeirrar mismununar sem útfærsla þeirrar tækni sem hér er um rætt og þeirra leikreglna sem eru á ferðinni getur leitt af sér.

Við fjöllum að sjálfsögðu mikið um persónuverndina, enda kemur hún fram í heiti tillögunnar. Fyrir utan dreifða gagnagrunna á heilbrigðissviði er það persónuverndin. Í greinargerð með tillögu okkar vitnum við til tveggja virtra fræðimanna og vísindamanna á þessu sviði, sem raunar eru ábyrgðaraðilar í þeirri nefnd sem ríkisstjórnin ætlar að leggja mest traust á í sambandi við útfærslu málsins, þ.e. í svonefndri tölvunefnd. Vel að merkja þá stendur til að endurskoða þá löggjöf og búa til stofnun sem sannarlega veitir ekki af þó að ekki komi til þetta mál. Þarna er um að ræða Þorgeir Örlygsson, lagaprófessor og formann tölvunefndar, og dr. Harald Briem lækni og varaformann nefndarinnar, og ég held að það sé fróðlegt fyrir menn að kynnast sjónarmiðum þeirra eins og þeir lýsa þeim sjálfir í tilvitnuðum köflum í greinargerð með tillögunni.

Við förum líka yfir þróunina á alþjóðavettvangi, bendum á margar samþykktir, þar á meðal samþykktir sem litla skoðun hafa fengið af hálfu ríkisstjórnarinnar við undirbúning málsins. Með tillögunni fylgir ítarefni með tilvitnunum í fjölmarga. Fyrir utan þýðingu á kafla úr norska nefndarálitinu er þar að finna reglugerð hæstv. heilbrrh. frá 4. júlí 1997, um vísindasiðanefnd, og siðanefndir á sjúkrahúsum, svo og tilvitnanir í greinar eftir fjölmarga aðila, gagnrýnar umsagnir um frv. því ekki hefur þurft að halda öðru mikið á lofti, það hefur skilað sér. Við höfum fylgt þeirri reglu varðandi þetta ítarefni með greinargerðinni að taka ekki út af gagnagrunni eða heimasíðu heilbrrn. þær umsagnir sem þar eru og eru mönnum tiltölulega aðgengilegar sem eru að skoða þessi mál og hafa aðgang að netinu.

Ég legg svo til, virðulegur forseti, að að lokinni umræðu um þessa tillögu verði henni vísað til hv. heilbr.- og trn.