Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 16:58:51 (548)

1998-10-16 16:58:51# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[16:58]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þm. Ögmundur Jónasson erum ekki sammála að öllu leyti í þessu máli. Það kom skýrt fram í andsvari hans. Hann lítur ekki á jákvæða þætti málsins. Þetta frv., ef að lögum verður, getur orðið til þess að við greinum sjúkdóma fyrr, þróum lyf við sjúkdómum og eflum forvarnir. Hann einskorðar sig við að tortryggja málið. Hann telur ekki að grunnurinn muni efla heilbrigðisþátt þjóðarinnar og heldur því fram að þetta sé gert fyrir erlend tryggingafélög. Það er mergur málsins hjá hv. þm. og þarna erum við bara ekki sammála. Trúlega verðum við ekki sammála um það og ég er viss um að ég get ekki snúið hv. þm. við með þetta mál, enda hefur félag hans gefið út harðorðar yfirlýsingar um það og þá er ég að tala um stéttarfélagið sem hann vinnur fyrir.