Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 17:00:14 (549)

1998-10-16 17:00:14# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[17:00]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil segja það eitt að ég er hlynntur rannsóknum, ég er hlynntur forvörnum og ég er hlynntur því að stuðla að vísindastarfi hvort sem er hér á landi eða annars staðar. Ég tel þetta hins vegar ekki verða rannsóknum eða vísindum til framdráttar.

Það var eitt atriði sem hæstv. ráðherra hefði mátt nefna þegar hún nefndi þá meginþætti sem hafa verið til umræðu í tengslum við þetta mál og það er forræðishyggjan. Ég gagnrýndi það mjög harkalega í ræðu minni að stjórnvöld virtust ekki setja spurningarmerki við þá siðferðilegu ábyrgð sem þau virðast reiðubúin að axla gagnvart þjóðinni og gagnvart þeim hluta hennar sem er andvígur málinu.

Ég hef iðulega sagt að mér finnist ekkert að því að fyrirtæki hafi samband við sjúklinga, einstaklinga og hópa og leiti eftir samstarfi um rannsóknir. En hitt, að ein ríkisstjórn geti afhent þjóð sína, kjörþjóð eins og það heitir í auglýsingabæklingi Íslenskrar erfðagreiningar, erlendum lyfjafyrirtækjum og tryggingafyrirtækjum til ráðstöfunar, finnst mér vera áhyggjuefni.

Að lokum, hæstv. forseti, þegar talað er um hvort þetta hafi orðið til góðs finnst mér að við eigum að hafa í huga að á milli læknastéttarinnar og íslensku þjóðarinnar hefur verið allgott trúnaðartraust. Því trausti er nú stefnt í hættu. Þegar menn gera sér skyndilega grein fyrir því að upplýsingar sem fóru áður til vísindarannsóka og til þess eins að finna bót þeirra meina eru nú orðnar að viðskiptavöru sem í sumum tilvikum, og ég leyfi mér að staðhæfa, verða notaðar í tilgangi sem ég get a.m.k. ekki skrifað upp á.