Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 17:07:59 (553)

1998-10-16 17:07:59# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[17:07]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Málið er að allt hangir þetta saman, þær spurningar hvort rétt sé að setja saman miðlægan gagnagrunn sem ég vil leyfa mér að hafa efasemdir um og mér finnst að eigi að skoða mjög gaumgæfilega í ljósi þess hvaða upplýsingar muni verða þar. Þetta hangir saman við það hvort þetta verður nokkurn tíma að raunveruleika, hvort viðkomandi stofnanir og þeir einstaklingar, sérfræðingar sem búa yfir upplýsingum vilji láta þær af hendi. Ekki er hægt að taka einn þátt út úr. Það er afar erfitt. Það eru þessar siðferðilegu spurningar í þessu. Það eru spurningarnar um sérleyfi og hvort það sé rétt að koma upp svona gagnagrunni o.s.frv. Allt þetta erum við að vega og meta.

Ég vil nefna eitt atriði til viðbótar, hæstv. forseti, sem ég kom ekki að áðan og það er varðandi aðgang að nefndinni sem úrskurðar um aðganginn að grunninum. Hæstv. heilbrrh. var að reyna að skýra sjónarmið sín hvað það varðar. Gagnrýnin sem hefur komið fram varðar það að sá sem hefur sérleyfi skuli koma að sem eftirlitsaðili eða dómari hvað þetta varðar. Ég tek undir það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson benti á í gær að ef þetta verður svona, koma fyrir augu fulltrúa sérleyfishafans hugmyndir um verkefni sem menn ætla að vinna út frá þessum upplýsingum, þessum gagnagrunni þannig að þar með getur verið rofinn trúnaður við vísindamenn. Þeir geta ekki treyst því að að ekki sé hægt að stela af þeim hugmyndunum. Mér finnst þetta fyrirkomulag algerlega óásættanlegt að sá aðili sem á allt sitt undir þessu skuli eiga aðild að nefndinni. Hann á að fá að koma og skýra sjónarmið sín en hann á ekki að vera dómari í þessari nefnd.