Endurskoðun reglna um sjúklingatryggingu

Mánudaginn 19. október 1998, kl. 15:33:05 (565)

1998-10-19 15:33:05# 123. lþ. 13.15 fundur 20. mál: #A endurskoðun reglna um sjúklingatryggingu# þál., Flm. ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 123. lþ.

[15:33]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 20, 20. máli, um endurskoðun reglna um sjúklingatryggingu. Flutningsmenn eru sú sem hér stendur ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni. Þál. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að láta fara fram úttekt á reglum um sjúklingatryggingu hér á landi og í kjölfarið verði lagðar fram tillögur sem miði að réttarbótum á þessu sviði. Tillögurnar lúti m.a. að því að skaðabætur og miskabætur verði greiddar þeim sem verða fyrir líkamstjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi, dvalarstofnun fyrir sjúklinga eða heilsugæslustöð og að leið sjúklinga til að sækja rétt sinn verði einfölduð og þannig komið í veg fyrir fjölda dómsmála.``

Þessi þáltill. var lögð fram á síðasta þingi, 122. þingi, kom á dagskrá en var ekki rædd.

Á síðustu árum hefur komið skýrt í ljós að ekki eru í nægilega góðu horfi málefni þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir tímabundinni eða varanlegri örorku vegna rannsóknar eða meðferðar á sjúkrahúsi, heilsugæslustöð eða dvalarstofnun fyrir sjúklinga, þ.e. þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir svokölluðum læknamistökum. Kvartað hefur verið undan seinagangi í kerfinu, erfiðleikum við að afla gagna, erfiðri sönnunaraðstöðu, lágum bótum og svo mætti lengi telja.

Í f-lið 24. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, er kveðið á um slysatryggingu sjúklinga sem eru til meðferðar á sjúkrastofnunum sem starfa samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og heilsutjónið eða örorkan er vegna læknisaðgerða eða mistaka starfsfólks á þessum stofnunum. Ákvæðið hefur ekki verið talið tryggja nægilega réttarstöðu þeirra sem undir það falla.

Flutningsmenn hafa kynnt sér þessi mál í Danmörku og telja að hafa skuli lög og reglur þar til fyrirmyndar við endurskoðunina. Þar eru í gildi sérstök lög um sjúklingatryggingar, nr. 367/1991, með síðari breytingum, en þau tóku gildi 1. júlí 1992. Með þeim lögum er tryggt að sjúklingar eða aðstandendur látins sjúklings eigi rétt á skaðabótum vegna afleiðinga rannsóknar og/eða meðferðar á sjúkrahúsum. Auk þess taka lögin til þeirra sem tekið hafa þátt í tilraunum, sem og blóð-, sæðis- og líffæragjafa sem hafa orðið fyrir líkamstjóni við meðferð á sjúkrahúsi. Gildissvið laganna var enn víkkað árið 1995. Dönsku lögin hafa leitt til aukins réttar fyrir sjúklinga í Danmörku til skaðabóta vegna afleiðinga rannsóknar og meðferðar á sjúkrahúsum því að unnt er að fá greiddar skaðabætur án þess að sannað sé að um mistök læknis hafi verið að ræða. Þó þarf ákveðnum skilyrðum samkvæmt lögunum að sjálfsögðu að vera fullnægt til að bótaréttur verði virkur. Ákvæði laganna hafa einnig í för með sér að mun einfaldara og fljótlegra er að leita réttar síns nú en áður, en margir setja fyrir sig löng og erfið réttarhöld. Í Danmörku eru og til frekari úrræði ef unnt er að rekja líkamstjón til lyfja.

Á 113. löggjafarþingi var lagt fram til kynningar af þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Guðmundi Bjarnasyni, frumvarp til laga um sjúklingatryggingu, en frumvarpið var samið af Arnljóti Björnssyni, þáverandi prófessor, að beiðni ráðherra. Fyrirmynd frumvarpsins var hið danska lagafrumvarp um sjúklingatryggingu sem síðar varð að lögum þar í landi, þ.e. þeim lögum sem að framan getur. Þeim hefur síðan verið breytt lítils háttar. Einnig hafa verið gerðar ýmsar breytingar á íslenskum lögum sem varða sjúklinga, svo sem almannatryggingalögum. Þá tóku gildi 1. júlí 1993 skaðabótalög hér á landi, en þau hafa sætt breytingum, og árið 1997 voru samþykkt lög um réttindi sjúklinga. Frumvarp um sjúklingatryggingu hefur hins vegar ekki verið lagt fram að nýju á Alþingi frá því á 113. löggjafarþingi þegar málið var lagt fram til kynningar.

Á haustþingi 1997 lagði Margrét Frímannsdóttir fram fyrirspurn til heilbrigðisráðherra um mistök við læknisverk. Þar var m.a. spurt um fjölda kæra sem borist hafa frá sjúklingum til landlæknisembættisins vegna meintra mistaka lækna á árunum 1990 til og með 1997, skipt niður eftir sjúkrahúsum, innan og utan höfuðborgarsvæðisins, heilsugæslustöðvum og einkareknum læknastofum. Þá var spurt um afdrif kæranna og bótafjárhæðir. Í svari heilbrigðisráðherra á þskj. 432, 159. mál 122. löggjafarþings, kemur m.a. fram að tölvufærð skrá um ágreiningsmál hafi verið haldin hjá landlæknisembættinu í áratug. Fjöldi mála hefur á þeim tíma aukist frá nokkrum tugum í um það bil 250 mál á ári. Þar eru meðtaldar allar kvartanir og kærur sem berast embættinu en undanskilin þau mál sem afgreidd eru í gegnum síma. Þá kemur fram í svari ráðherra, samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögmanns, að á árunum 1990--1997 hafi verið greiddar bætur fyrir læknamistök að fjárhæð 74.393.598 kr. í kjölfar málaferla. Þá kemur einnig fram að fjöldi þeirra sem telur sig hafa orðið fórnarlömb læknamistaka leggur ekki í málarekstur bæði vegna mikils kostnaðar og annars álags sem því fylgir.

Flutningsmenn þessarar tillögu telja þessar niðurstöður sýna að mjög brýnt sé að tekið verði á þessum málum. Mikil vinna hefur þegar verið innt af hendi, samanber framangreint frumvarp um sjúklingatryggingu frá 113. þingi sem birt er sem fylgiskjal með tillögu þessari, og leggja flm. til að það frumvarp verði haft til hliðsjónar við þá vinnu sem tillögugreinin gerir ráð fyrir.

Eins og kom fram í upphafi máls míns er þetta í annað sinn sem þessi þáltill. er lögð fram. Nú tók ég eftir því á þeim verkefnalista eða málalista sem birtur var með stefnuræðu hæstv. forsrh. í upphafi þessa þings að hæstv. heilbrrh. hyggst leggja fram frv. um sjúklingatryggingar en það er ekki farið að sjást í þingsölum. Vonandi hefur það að þetta mál kom fram á síðasta þingi ýtt við ráðherranum að taka á þessum málum sem eru mjög brýn. Fólk sem hefur orðið fyrir læknamistökum eða telur sig hafa orðið fyrir þeim hefur lagt mjög ríka áherslu á að gerð verði einhver réttarbót og því auðveldað að ná fram rétti sínum. Sé búið að vinna einhverja þá vinnu sem við leggjum til í þessari þáltill. vonast ég til að málið komi fram og unnt verði að samþykkja það þannig að það verði hægt að ráða bót á því ástandi sem ríkir í málefnum þeirra sem hafa orðið fyrir eða telja sig hafa orðið fyrir læknamistökum á undanförnum árum.

Herra forseti. Ég legg til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og umfjöllunar í hv. heilbr.- og trn.