Vegtollar

Mánudaginn 19. október 1998, kl. 16:38:30 (573)

1998-10-19 16:38:30# 123. lþ. 13.20 fundur 45. mál: #A vegtollar# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 123. lþ.

[16:38]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég er ánægð með að hv. þm. telur ástæðu til að skoða fleiri leiðir en tollana. Maður hefur tekið eftir því að víða erlendis þar sem vegtollar hafa verið notaðir í þessa veru --- hv. þm. talaði um Ástralíu og Nýja-Sjáland --- hefur öðrum aðferðum einnig verið beitt auk tollanna til að létta á umferð og ná þessum markmiðum. En ég ítreka að mér hefði fundist full ástæða til, þó að þessi grein hagfræðinnar sé góð og gild, að fleiri aðferðir yrðu skoðaðar ef farið verður í þessa vinnu, sem lagt er til að farið verði í. Ég tek vissulega undir að full ástæða er til að skoða ýmsar leiðir, bæði með tollana, hvernig á að beita þeim og einnig aðferðir til að draga úr bæði mengun, umferðarálagi og þörf á gerð samgöngumannvirkja.