Vegtollar

Mánudaginn 19. október 1998, kl. 16:40:21 (574)

1998-10-19 16:40:21# 123. lþ. 13.20 fundur 45. mál: #A vegtollar# þál., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 123. lþ.

[16:40]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Hv. þm. Einar Guðfinnsson leggur fram frv. um vegtolla. Ég vil taka undir með hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur þegar hún nefnir þá nauðsyn að fara í meiri breidd í þessari umræðu. Ég viðurkenni fúslega að vegtollaleiðin er mjög spennandi og henni hefur verið beitt víða, en ég held að við Íslendingar séum mjög skammt á veg komnir í öðrum lausnum sem þó aðrar þjóðir hafa beitt sér mjög í.

Það er t.d. mjög furðulegt að mínu mati að við skulum ekki hafa reynt fyrir okkur meira varðandi rafmagnsbíla bara sem dæmi. Við ættum að beita efnahagslegum forsendum eða efnahagslegum ágóða notenda til að hvetja menn til að fara í rafmagnsbíla. Ég tel að tæknin sé orðin þannig núna að mjög margir mundu kannski velja þá leið ef það væri gert fýsilegra að hafa t.d. annan bíl heimilisins sem rafmagnsbíl. Ég tel að miðað við aðrar þjóðir séum við mjög skammt á veg komin í sambandi við almenningssamgöngur og það á bæði við strætisvagna í bæjum og sérleyfisbíla og almenningssamgöngur í það heila tekið í landinu. Þar er hægt að beita opinberum aðgerðum af ýmsu tagi til þess að fá fólk til að fara frekar saman til vinnu og nota almenningsflutningskerfi af ýmsu tagi. Ég býst við að við værum meira í rútubílum og þess háttar en lestum þó að margir hafi talað um að vera með lestir hér.

Við höfum ekki verið mjög dugleg í að skipuleggja okkar umferðarmál. Ég tel að við höfum anað út í fjárfestingar og einkabílisma án þess að umræðan hafi verið mikið í þá veru að við ættum að gæta að okkur og gæta sparnaðar. Ég er ánægður með að hv. þm. Einar Guðfinnsson hugsi til náttúrunnar og öll þau atriði sem ég var að nefna í sambandi við rafmagnsbíla, strætó og skipulag ásamt með vegtollum og e.t.v. fleiri hugmyndum eru mjög spennandi mál. Ég vonast til þess að sérstaklega þessi mál varðandi rafmagnsbíla og strætókerfi eða almenningsflutningakerfi verði tekið sterklega inn í myndina og tek undir með hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur að óska eftir því að í meðhöndlun nefndar verði málið breikkað og ekki bara skoðuð leið vegtollanna heldur meira fyrirbyggjandi leiðir.