Vegtollar

Mánudaginn 19. október 1998, kl. 16:43:37 (575)

1998-10-19 16:43:37# 123. lþ. 13.20 fundur 45. mál: #A vegtollar# þál., Flm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 123. lþ.

[16:43]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þær ágætu viðtökur sem þetta mál hefur fengið. Ég hef orðið þess var eftir að málið var upphaflega flutt á síðasta þingi að það hefur fengið talsverða athygli. Þetta er auðvitað tilraun til nýstárlegrar hugsunar. Ég á ekkert von á því að þetta mál verði óumdeilt nema síður sé. Það munu verða margir til að sperra eyrun þegar menn fara að tala í þessum anda.

Ég hef sérstaklega orðið var við að sumir hafa af því áhyggjur að þetta geti orðið til þess að auka álögur á umferðina. Þess vegna vil ég leggja mikla áherslu á að hér er alls ekki um slíka hugmynd að ræða heldur þvert á móti. Hér er um annan valkost að ræða við þá innheimtu af gjöldum af umferðinni sem við höfum í dag. Vegtollum í dag hefur verið beitt til að auka framkvæmdir til vegamála. Hér er verið að reyna að hugsa þetta mál út frá öðrum sjónarhóli, að þetta geti verið gjaldtaka sem komi í staðinn fyrir núverandi gjaldtöku, þetta geti verið gjaldtaka sem dragi úr þörfinni fyrir því að gera umferðarmannvirki og þetta sé gjaldtaka sem gæti dregið úr mengunarhættu sem er mjög alvarlegt mál í þjóðfélaginu hvernig sem á málin er litið og við skulum ekki gleyma því eins og oft hefur komið fram að hinn hættulegi útblástur sem menn vilja takmarka stafar að einum þriðja af innanlandssamgöngum. Hér er því um mál að ræða sem við verðum að nálgast af mikilli alvöru.

Hv. 4. þm. Norðurl. e. kom inn á þessi mál í mjög eðlilegu samhengi við umhverfismál í landinu og ég vil þess vegna taka það sérstaklega fram að það er einmitt ætlunin með þáltill. að reyna að nálgast það viðfangsefni með þeim sérstaka hætti.

Það er í raun ekki mikil þörf á að bæta við þessa umræðu að öðru leyti en því að ég held að þetta sé eitt af þeim málum sem menn þurfi nokkurn tíma til að skoða og þess vegna sé eðlilegt að fara að hyggja að því núna vegna þess að þetta er viðfangsefni framtíðarinnar sem menn verða að komast að einhverri niðurstöðu um.