Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 20. október 1998, kl. 13:38:59 (579)

1998-10-20 13:38:59# 123. lþ. 14.3 fundur 114. mál: #A almenn hegningarlög# (refsiábyrgð lögaðila) frv. dómsmrh., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 123. lþ.

[13:38]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum þar sem lagt er til að lögfestar verði almennar reglur um refsiábyrgð lögaðila. Almenn hegningarlög eru bundin við persónulega refsiábyrgð og persónubundin viðurlög og gera þau ekki ráð fyrir því að lögð sé refsiábyrgð á lögaðila, þ.e. ópersónulega aðila sem geta átt réttindi og borið skyldur. Aftur á móti hefur í öðrum lögum um nokkurt skeið verið mælt fyrir um refsiábyrgð lögaðila. Með frv. þessu er lagt til að sett verði í hegningarlög almenn ákvæði um tilhögun þessarar ábyrgðar þar sem mælt verði fyrir um skilyrði slíkrar refsiábyrgðar, hverjir geti sætt henni og hvaða viðurlög komi til greina. Þetta mun stuðla að samræmingu við lagasetningu og túlkun sérrefsilaga.

Við samningu frv. hefur verið höfð hliðsjón af norrænum lögum um refsiábyrgð lögaðila. Samkvæmt frv. verður lögaðila ekki refsað nema þegar lög mæla svo fyrir skýrt og afdráttarlaust. Þannig gerir frv. ekki ráð fyrir almennri refsiábyrgð til lögaðila til jafns við refsiábyrgð manna. Frv. felur því ekki í sér sjálfstæða heimild til að leggja refsi\-ábyrgð á lögaðila heldur setur það almennt skilyrði um að slíka heimild verði að finna í öðrum lögum.

Með frv. er lagt til að lögaðilum verði refsað með fésektum eða sviptingu starfsréttinda. Í frv. er einnig tekið fram að refsiábyrgðin gildi um sérhvern ópersónulegan aðila. Þó er refsiábyrgð stjórnvalda bundin við brot sem framin eru í einkaréttarlegri starfsemi á vegum ríkis eða sveitarfélaga sem er í samkeppni við eða á annan hátt sambærileg starfsemi einkaaðila.

Í frv. er refsiábyrgð lögaðila bundin því skilyrði að fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða einhver annar á hans vegum hafi með saknæmum hætti unnið refsinæman eða ólögmætan verknað í starfsemi lögaðilans. Frv. gerir hins vegar ráð fyrir því að í sérrefsilögum megi kveða á um frávik frá þessu skilyrði, ýmist þannig að refsiábyrgð lögaðila sé ekki háð sök starfsmanns eða sett séu önnur skilyrði svo sem að refsiábyrgð sé háð því að brot hafi verið framið til hagsbóta fyrir lögaðila.

Þá er ekki nauðsynlegt samkvæmt frv. að staðreynt hafi verið hvaða maður á vegum lögaðilans hafi gerst sekur um verknaðinn heldur nægjanlegt að sýnt hafi verið fram á að refsiverður verknaður hafi verið unninn af einhverjum á hans vegum.

Auk þeirra nýmæla sem er að finna í frv. og ég hef rakið er lögð til sú breyting á viðmiðunarreglu 1. mgr. 51. gr. laganna að hafa skuli hliðsjón af þeim fjárhagslega ávinningi eða sparnaði sem leiddi af broti eða stefnt var að.

Ég hef þá, herra forseti, gert grein fyrir meginatriðum í frv. þessu og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.