Mannanöfn og hjúskaparlög

Þriðjudaginn 20. október 1998, kl. 13:42:19 (580)

1998-10-20 13:42:19# 123. lþ. 14.4 fundur 134. mál: #A mannanöfn og hjúskaparlög# (sjálfræðisaldur) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 123. lþ.

[13:42]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um mannanöfn og frv. til breytinga á hjúskaparlögum. Þessum breytingum er ætlað að færa efni laganna til samræmis við hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18 ár með nýju lögræðislögunum sem tóku gildi um síðustu áramót.

Lagt er til að nafnalögum verði breytt þannig að foreldrar barna undir 18 ára aldri þurfi að standa að umsókn um nafnbreytingu. Þessi tillaga er reist á samhljóða tillögu lagaskoðunarnefndar sem skipuð var vegna hækkunar sjálfræðisaldurs. Fyrir þessu færði nefndin þau rök að forsjárforeldrar eigi rétt á og beri skylda til að velja barni sínu nafn við upphaflega nafngjöf. Því verði að telja eðlilegt að forsjárforeldrar skuli einnig leggja fram umsókn um breytingar á nafni barnsins.

Með tillögu um breytingu á hjúskaparlögum er lagt til að dómsmrn. afli afstöðu forsjárforeldra áður en börnum yngri en 18 ára er veitt leyfi til að stofna til hjúskapar. Þykir rétt að foreldrar komi að svo mikilvægri ákvörðun sem stofnun hjúskapar er en almennt verður að gera ráð fyrir því að ráðuneytið veiti ekki slík leyfi gegn vilja forsjárforeldra.

Ég hef þá, herra forseti, rakið efni þessa frv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og til meðferðar hjá hv. allshn.