Gæludýrahald

Þriðjudaginn 20. október 1998, kl. 13:44:01 (581)

1998-10-20 13:44:01# 123. lþ. 14.5 fundur 13. mál: #A gæludýrahald# frv., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 123. lþ.

[13:44]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Það frv. sem ég flyt um gæludýrahald hefur verið flutt á nokkrum undanförnum þingum og ég geri mér vonir um að eftir umræðu sem farið hefur fram um málið í hv. umhvn. á liðnum þingum megi takast að afgreiða það frá nefndinni á yfirstandandi þingi. Þetta mál hefur vakið talsvert umtal og athygli og yfirleitt verið frekar jákvæð viðbrögð við því, bæði af hálfu margra sem halda gæludýr og samtaka um dýravernd sem og þeirra sem hafa áhuga á því að koma þessum málum í sem best horf. Þessi lög eru hugsuð sem rammalöggjöf um málið.

[13:45]

Það er búið að setja lög eiginlega á flestum sviðum um dýr, dýrahald, dýravernd, villt dýr, búfjárhald í þéttbýli o.s.frv. Þetta frv. fer ekki inn í á svið búfjárhalds í þéttbýli, um það gilda sérstök lög. En um gæludýrahald hafa ekki verið í gildi nein rammalög. Það eru ákvæði í lögum um hollustuhætti sem sveitarstjórnir hafa stuðst við til að gera samþykktir um gæludýrahald, sérstaklega hafa verið settar samþykktir víða um hundahald og reyndar kattahald í vaxandi mæli. Á því er ekki ætlað að verði breyting með þessu frv. Gert er ráð fyrir víðtækum heimildum til sveitarfélaga til að gera samþykktir um þetta á sínum vegum en þá innan ramma þessarar löggjafar eða með tilliti til þessarar löggjafar, ef frv. yrði samþykkt.

Markmiðið með frv., virðulegur forseti, kemur fram í 1. gr., að lögfesta reglur um gæludýrahald í þéttbýli, kveða á um réttarstöðu eigenda þeirra og annarra og veita sveitarfélögum skýrar heimildir til að setja nánari reglur í samþykktir um gæludýrahald. Síðan er þetta markað frekar í greinum sem á eftir fara. En það er gert ráð fyrir að þetta taki til gæludýra sem einstaklingar halda sér til afþreyingar og hleypt er út undir bert loft um lengri eða skemmri tíma. Þessu er ekki ætlað að taka til gæludýra sem eingöngu eru haldin í húsum inni. Réttarstaðan er skýrð með ákvæðum 4. gr. þar sem gert er ráð fyrir að eigendur gæludýra skuli gæta þess að þau gangi ekki á annarra manna lendum og sjá til þess að dýrin valdi öðrum hvorki óþægindum né tjóni. Einnig er kveðið á um bótaskyldu og gert ráð fyrir því hins vegar, ef tjónþoli hefur á einhvern hátt stuðlað að því að tjón varð að heimilt sé að lækka bætur eða láta þær niður falla. Það er gert ráð fyrir að gæludýr verði auðkennd eða merkt eiganda sínum í samræmi við nánari ákvæði í samþykkt sveitarfélags.

Ég stikla hér aðeins á nokkrum þáttum í þessu frv., þeim atriðum sem skipta kannski mestu máli. Þar sem málið hefur áður verið rætt í þinginu þá ætla ég ekki að orðlengja það eða fara ítarlega yfir ákvæði frv. að öðru leyti.

Í fskj. er að finna yfirlit um könnun sem gerð var í Reykjavík varðandi óþrifnað af völdum katta og er vitnað til þess. En grg. sem fylgir málinu lýsir nánar stöðu mála, fjölda slysa eða óhappa sem skráð hafa verið af völdum dýra, þar á meðal bitsára, og ýmislegt fleira.

Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að ég tel að gæludýrahald sem er mjög vaxandi sé eðlilegur þáttur í lífi manna í þéttbýli sem dreifbýli þar sem rýmra er um. Þessu er ekki á neinn hátt stefnt gegn slíku dýrahaldi heldur fyrst og fremst til að kveða á um ábyrgð eigenda og réttarstöðu að öðru leyti. Ég hef fylgst með þróun samþykkta hjá sveitarfélögum á undanförnum árum um hunda- og kattahald. Þær eru nokkuð misjafnar þessar samþykktir en sumar þeirra býsna víðtækar og ítarlegar og gera einnig ráð fyrir gjaldtöku. Nokkur brögð hafa verið að því að löggæsluyfirvöld sinni ekki þessum málum sem skyldi og verið undan því kvartað. Auðvitað þarf að hafa reiðu á dýrahaldi af þessu tagi eins og öðru sem snertir lög og reglur og skiptir miklu að þetta fari sem best fram og verði ekki til ama fyrir fólk þannig að grannaréttur sé virtur og heilbrigðisákvæði séu virt, þ.e. að ekki þurfi að angra nágranna þó að menn haldi gæludýr.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að lokinni umræðu um málið verði frv. vísað til hv. umhvn.