Rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði

Þriðjudaginn 20. október 1998, kl. 14:04:35 (584)

1998-10-20 14:04:35# 123. lþ. 14.6 fundur 142. mál: #A rekstur almenningssamgöngukerfis í Eyjafirði# þál., VS
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 123. lþ.

[14:04]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. flm. og flutningsmönnum þessarar tillögu fyrir að leggja hana fram. Mér finnst hún vera allrar athygli verð og tel reyndar að svæðið sem um ræðir, Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið, falli ákaflega vel að þessu verkefni ef út í það yrði farið.

Það sem kom m.a. fram í máli síðasta hv. ræðumanns í sambandi við almenningssamgöngur almennt og að skoða þær í samhengi þá er mikið rétt að það þyrfti að gera. En mér finnst að það sé mál sem hafi verið rætt alveg síðan ég kom hingað fyrst fyrir tólf árum, að þarna þyrfti að horfa meira á hlutina í heild sinni en ekki einangrað, þ.e. umferð á vegum, sjó og í lofti.

Ég get tekið undir allt það sem hv. þm. nefndi í framsöguræðu sinni sem rök með því að þetta verði gert og út í þessa tilraun verði farið. Hann nefnir m.a. framhaldsskólana á Akureyri. Það hefur sýnt sig í þeim könnunum sem gerðar hafa verið af hálfu Byggðastofnunar um ástæður þess að fólk flyst af landsbyggðinni, að þar er kostnaður við að senda börn í framhaldsskóla verulega stór þáttur. Þess vegna finnst mér það sterk rök með tillögunni að með þessu móti gæti ungt fólk við Eyjafjörð búið heima í stað þess að þurfa að dvelja um veturinn á Akureyri, og kannski ein meginástæða fyrir því að þessi tilraun er áhugaverð.

Í sambandi við ferðamenn og ferðamannaþjónustu við Eyjafjörð þá er náttúrlega um stórt mál að ræða og sífellt vaxandi fjöldi ferðamanna heimsækir þetta svæði sem er mikilvægt. Sem dæmi um það er Laufás við Eyjafjörð, sem yrði einn af þeim áfangastöðum sem kæmu til greina. Þar er ferðamannafjöldi orðinn tíu til ellefu þúsund á ári hverju, sem er alveg geysileg breyting frá því sem var fyrir örfáum árum.

Það hefur svo sem áður verið reynt að fara út í skipulagðar áætlunarferðir á þessu svæði og eitthvað er um það í dag að þær séu í gangi. En það er svolítið annað að vera með áætlunarferðir, sem eru ekki nógu vel auglýstar eða ekki nógu ljóst hvenær þær eru, en að taka upp skipulagða starfsemi þar sem mætti alltaf stóla á ferðir með svo þéttu millibili. Vegasamgöngur fara mjög batnandi á þessu svæði. Á aldamótaárinu ætti að verða komið bundið slitlag á öllu svæðinu. Það er einnig stór þáttur sem varðar þetta mál og þar af leiðandi ætti að verða auðveldara að fara um svæðið allan ársins hring. Svæðið er að þróast sem eitt atvinnusvæði og sér maður með hverju árinu sem líður skref tekin í þá átt.

Ég vil þó segja í lokin að það er nú þannig með okkur Íslendinga að við erum víst dálítið mikið fyrir að vera á eigin vegum en ferðast ekki með almenningssamgöngutækjum, hvað sem því veldur. Það er því ekki þar með sagt að þetta mundi heppnast, en ætla ég ekki að vera með neinar hrakspár á þessari stundu. En a.m.k. slær það mig þannig að þetta sé tilraun eða verkefni sem sé þess virði að eiga rétt á að eiga sér stað. Nefni ég umhverfismál einnig í því sambandi sem hér hafa verið nefnd. Það má ábyggilega draga úr mengun með frekari notkun almenningsvagna og gildir það náttúrlega ekki síst á suðvesturhorninu þar sem sú mengun er mest.

Hv. þm. gerði ekki tillögu um nefnd í máli sínu áðan og sjálfsagt geta fleiri en ein komið til greina í þeim efnum. En mér finnst koma til greina að tillagan verði tekin fyrir í allshn. þar sem málið varðar Byggðastofnun og málefni Byggðastofnunar eru á málefnaskrá þeirrar nefndar. En þar sem um samgöngumál er að ræða tel ég líka að samgn. gæti komið til greina. Mér finnst að það mætti alveg eins hugsa sér að þessi tilraun verði gerð án þess að hún verði á vegum Byggðastofnunar. Það er ekkert skilyrði í mínum huga. Hins vegar kemur hún mjög vel til greina. En ég þakka fyrir þessa tillögu.