Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 10:35:11 (587)

1998-10-22 10:35:11# 123. lþ. 15.13 fundur 77. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (gildistaka EES-reglna) frv. 121/1998, Frsm. KHG
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[10:35]

Frsm. sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Sjútvn. tók til meðferðar á fundi sínum fyrr í vikunni frv. á þskj. 77 breytingu á lögum nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Nefndin hefur sent frá sér svohljóðandi nefndarálit, með leyfi forseta:

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristínu Haraldsdóttur frá sjávarútvegsráðuneyti. Ekki þótti tilefni til að senda frumvarpið til umsagnar.

Fulltrúi sjávarútvegsráðuneytis lagði áherslu á að gildistöku IV. og V. kafla laga nr. 55/1998 verði frestað í ljósi þess að samningur sérfræðinga EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins frá nóvember 1996 um að fella inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið samræmdar heilbrigðisreglur um dýr og dýraafurðir var samþykktur í EES-nefndinni 17. júlí sl. með gildistöku 1. janúar 1999. Í IV. og V. kafla laganna er að finna ákvæði til lögfestingar á þeim samningi og er nauðsynlegt að fresta gildistöku þeirra ákvæða til samræmis við gildistökutíma samningsins.

Nefndin tekur undir röksemdir fulltrúa sjávarútvegsráðuneytis og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Vilhjálmur Egilsson, Guðmundur Hallvarðsson, Lúðvík Bergvinsson og Stefán Guðmundsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.``

Undir nefndarálitið rita auk formanns Árni Ragnar Árnason, Hjálmar Árnason, Svanfríður Jónasdóttir og Einar K. Guðfinnsson.

Herra forseti. Nefndin leggur til að málið verði samþykkt og mælist til ef unnt er að það verði gert að lögum fyrir 1. nóv. nk.