Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 10:42:33 (589)

1998-10-22 10:42:33# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[10:42]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta var flutt á síðasta þingi en er nú endurflutt. Nokkrar umræður fóru fram um málið á síðasta þingi og þess vegna er óþarfi fyrir mig að hafa langa framsöguræðu að þessu sinni en þó vil ég geta þess að breytingar hafa verið gerðar á frv. sem að mínu mati taka mið af þeirri gagnrýni sem kom fram á frv. þegar það var flutt á síðasta þingi.

Í 6. gr. hefur orðalagi verið breytt þannig varðandi þjóðleikhússtjórann að mælt er fyrir um það í fyrri mgr. greinarinnar að ætíð skuli auglýsa embætti þjóðleikhússtjóra laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils, þ.e. á fimm ára fresti skuli embætti þjóðleikhússtjóra auglýst laust til umsóknar.

Í umræðum um frv. hefur komið fram að æskilegt væri að hafa áfram í lögum ákvæði sem mælti fyrir um það að sami maður mætti ekki í senn gegna embætti þjóðleikhússtjóra nema í takmarkaðan árafjölda. Ég hef lagst gegn slíkum hugmyndum og geri ekki tillögu um það í þessu frv. Rökin sem ég tel að hafa beri í huga þegar um þessi mál er rætt eru þau að óeðlilegt sé að mæla fyrir um það í lögum að ekki megi ráða mann nema til takmarkaðs tíma í starf sem þetta. Þar með væru menn að binda hendur framkvæmdarvaldsins um of og koma í veg fyrir það nema lögum sé breytt að hæfir menn ráðist til starfa við slíkar stofnanir af lagaástæðum þegar þeir hafa sýnt það í starfi að þeir eru vel til þess fallnir að sinna slíkum störfum. Hér er hins vegar gengið lengra en almennt gerist í lögum um embætti starfsmanna ríkisins, þ.e. á þann veg að auglýsa beri stöðuna lausa alltaf á fimm ára fresti og þess vegna verður sá sem gegnir embættinu að una því að starf hans sé auglýst laust til umsóknar á fimm ára fresti. Aðrir geta að sjálfsögðu sótt um starfið en mat er lagt á starf þess sem embættinu gegnir og tekin afstaða til þess hvort beri að ráða hann áfram í fimm ár eða ekki.

[10:45]

Regla þessi gengur lengra en almennt er mælt fyrir um í lögum um réttindi opinberra starfsmanna. Ég tel að með því að breyta 6. gr. á þennan veg í frv. sé komið til móts við þá gagnrýni sem fram kom og þá sé á fimm ára fresti unnt að taka afstöðu til þess hvort ástæða sé til að endurráða viðkomandi embættismann eða ekki. Að öðru leyti er ekki sett þak á starfstíma embættismannsins og það er ekki verið að binda hendur framkvæmdarvaldsins og ráðningarvaldsins þannig að það megi ekki endurráða mann sem getið hefur sér gott orð og sinnt sínu starfi óaðfinnanlega. Þar með er ekkert sem segir að ekki megi endurráða hann að loknum ákveðnum árafjölda.

Ég efndi til fundar í menntmrn. 15. október sl. að ósk forseta Bandalags ísl. listamanna og formanns Félags ísl. leikara. Á þeim fundi voru forustumenn ýmissa samtaka og stofnana á sviði leiklistar sem hafa látið að sér kveða í umræðum um leiklistarlagafrv. frá því það kom fram á Alþingi í fyrravetur. Þar var ítarlega rætt um frv. og farið yfir málefni sem því tengjast. Menn stöldruðu sérstaklega við þetta ákvæði í 6. gr., þ.e. að hún afnemur skylduna til þess að hafna manni sem starfað hefur við Þjóðleikhúsið sem þjóðleikhússtjóri ákveðið árabil. Í máli þeirra sem töluðu á þessum ágæta fundi komu fram skiptar skoðanir um þetta eins og hvað eina annað. Sumir vilja hafa þak, aðrir telja það ónauðsynlegt og enn aðrir töldu að með breytingunni á frv. væri farin eðlileg leið málamiðlunar og vinna bæri að slíkri niðurstöðu.

Sjónarmið þeirra sem sérstaklega bera hag Þjóðleikhússins fyrir brjósti er að brýnt sé að breyta lögunum um Þjóðleikhúsið og hvetja eigi til þess. Ég hef verið hvattur til þess m.a. af þjóleikhúsráði að þetta frv. fái greiða leið í gegnum þingið og tekið verði tillit til þeirra miklu hagsmuna sem eru í húfi fyrir Þjóðleikhúsið með að lög um það séu endurskoðuð. Ég kem því sjónarmiði hér á framfæri. Fyrir Þjóðleikhúsið er frv. mjög mikilvægt og þjóðleikhúsráð kom á fund minn fyrir nokkrum vikum til þess að árétta hve brýnt væri að það næði fram að ganga í þeirri mynd sem það er núna.

Nokkrar umræður hafa einnig orðið um 7. gr. þar sem fjallað er um þjóðleikhúsráð. Á fundi þeim sem ég efndi til í ráðuneytinu 15. október var yfirgnæfandi meiri hluti fundarmanna hlynntur þeirri skipan sem lagt er til að tekin verði upp varðandi þjóðleikhúsráðið í 7. gr. Þeir fögnuðu einnig þeirri breytingu sem gerð hefur verið á greininni frá því að frv. var flutt á síðasta þingi, þ.e. að í stað þess að Leiklistarsamband Íslands tilnefni tvo fulltrúa í þjóðleikhúsráðið verði sú skipan tekin upp að Félag ísl. leikara tilnefni einn fulltrúa og Félag leikstjóra á Íslandi annan af þeim tveimur fulltrúum sem ráðherra ekki skipar af fimm stjórnarmönnum í þjóðleikhúsráði.

Síðan hefur verið gerð breyting að því er varðar 16. gr. frv. Þegar frv. var lagt fram á síðasta þingi kom fram að menn töldu að í frv. bæri að tilgreina nöfn mikilvægra stofnana á leiklistarsviði eins og Leikfélags Reykjavíkur, Leikfélags Akureyrar og ýmsir aðrir voru nefndir til sögunnar. Ég færði þá rök fyrir því að í lögum sem þessum, sem mæltu fyrir um heimildir til þess að semja við aðila sem stunda leiklist og danslist og sviðslistir almennt, væri mjög erfitt að setja í lög nafn á einum en sleppa öðrum, að fara út í slíkar nafnarunur í lagatexta. Í sjálfu sér breytti það engu um efni málsins því aðalatriðið væri að ýta undir og hlúa að leiklistarstarfsemi og sviðslistum almennt. Það er betur tryggt eins og lagt er til í frv. en nú er. Í raun skortir mjög lagaforsendur fyrir menntmrh. til að veita þann öfluga stuðning, sem nauðsynlegur er í mörgum tilvikum, við leiklistar- eða sviðslistir, óperu og listdans, eins og málum er háttað í þjóðfélagi okkar. Núgildandi lög taka ekki mið af þeirri þróun sem verið hefur á þessu sviði á undanförnum árum.

Í 16. gr. var bætt inn annarri málsgrein. Fyrri hluti greinarinnar hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Heimilt er menntamálaráðherra og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs að gera tímabundinn samning við rekstraraðila atvinnuleikhúss og hlutaðeigandi sveitarfélag eða sveitarfélög um fjárstuðning við leikhúsið, með fyrirvara um fjárveitingar í fjárlögum á samningstímanum. Heimilt er einnig að gera slíka samninga við lögaðila, félög eða stofnanir á sviði listdans, óperu og annarra sviðslista.``

Þetta er hin almenna heimild sem veitt er í fyrri hluta 16. gr. Síðan er eftirfarandi ákvæði bætt inn í frv.:

,,Í þessum efnum skal taka sérstakt tillit til leiklistarstofnana og félaga sem lengi hafa notið fjárhagslegs stuðnings úr ríkissjóði.``

Þarna er með almennum orðum vísað til þeirra sem menn gerðu sérstaklega að umtalsefni hér við umræðurnar á síðasta þingi án þess þó að loka sig inni í nafnarunu. Lagt er til að þetta verði orðað svo almennt enda sé það best til þess fallið að skapa það jafnræði sem vera þarf á milli aðila á þessu sviði. Þó er þarna viðurkennt að sumir sem hafa aflað sér trausts á undanförnum árum vegna starfsemi sinnar njóti sérstakts tillits í þessu sambandi.

Herra forseti. Síðan er í 17. gr. lögð til sú breyting að í leiklistarráði sitji ekki fimm manns heldur þrír fulltrúar. Með því er mið tekið af hugmyndum sem fram komu við meðferð málsins á síðasta þingi.

Ég held, herra forseti, að ég hafi gert grein fyrir þeim helstu breytingum sem orðið hafa á frv. frá því að það var síðast flutt. Ég vil í lokin ítreka að það eru mjög eindregin tilmæli frá þeim sem hafa forustu fyrir Þjóðleikhúsinu að ákvæði frv. um Þjóðleikhúsið fái skjóta meðferð í þinginu. Það var leitað eftir umsögnum á síðasta þingi og þær liggja fyrir. Ég hef haldið fund með fulltrúum þeirra sem ég nefndi áður í ræðu minni og er sjálfsagt að menntmn. þingsins fái afrit af fundargerð þess fundar. Þannig gætu menn kynnt sér þær umræður sem fram hafa farið milli ráðuneytisins og forustumanna í sviðslistum frá því að þingið fjallaði um málið á sl. vori.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til hæstv. menntmn. eftir þessa umræðu.