Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 11:18:52 (594)

1998-10-22 11:18:52# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[11:18]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Nákvæmlega þarna liggur þetta: Það á að tala um þessi mál þegar fjallað er um þáltill. um byggðamál. En hvað eru byggðamál? Er það eitthvað sem við tölum um í sérstöku hólfi? Á að tala um leiklistarmálin þá? Er það rétti vettvangurinn til að tala um fyrirkomulag listamála í landinu? Auðvitað ekki, herra forseti. Auðvitað á að ræða um þessi mál þegar einstök málefni eru á dagskrá. Þegar leikhúslög eða frv. til nýrra leikhúslaga er á dagskrá eigum við að ræða hvernig við getum sem best tryggt að leikhúslistir og sviðslistir nái sem best til allra landsmanna og öllum landsmönnum sé tryggður aðgangur og þátttaka.

Með sama hætti ræðum við um byggðamál þegar við fjöllum um íbúðarmál, um félagsmál og öll önnur mál, hvernig þeim sé best fyrir komið þannig að jafnræðis sé gætt. Við viljum gefa sem flestum kost að njóta gæðanna og ef við þurfum að gera sérstakar ráðstafanir til þess að allir fái notið þeirra þá á að taka það fram í viðkomandi lögum. Þess vegna vil ég að það sé tekið fram í þessum lögum en ekki að búinn sé til einhver bás sem heitir byggðamál og þar eigi að tala um þessa hluti. Það er algerlega fráleitt.

Hins vegar er löngu tímabært að ræða um þáltill. til byggðamála sem átti að gilda fyrir árið í ár. Það sýnir kannski best viðhorfin gagnvart því sem þar er flokkað undir, að ekki skuli hafa verið hirt um að taka þá tillögu á dagskrá á liðnum þingvetri. Það er gagnslítið að vísa til þáltill. sem er ekki einu sinni komin fram á þessu þingi.