Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 11:43:18 (599)

1998-10-22 11:43:18# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[11:43]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir það með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, sem talaði á undan mér, að ég er mikill leikhúsunnandi og er ákaflega stolt af íslensku leikhúsi. Ég held að íslenskt leikhús sé meðal þess sem við getum verið hvað stoltust af í menningarlífi okkar. Ég hef margsinnis heyrt útlendinga tjá sig um þetta sem hér hafa verið og eru listunnendur og hafa kynnt sér mjög vel það sem er á boðstólum í listum, bæði í Evrópu og vestan hafs. Bæði á þetta við um leikhús og óperur, og þetta fólk hefur lokið miklu lofsorði á íslenskar uppfærslur á verkum sem það hefur áður séð. Ég held að þetta sé eitt af því sem við eigum að taka eftir og muna að þarna er vel gert. Þarna er vel unnið. Þarna er eitthvað sem við getum virkilega verið ásátt með.

[11:45]

Þess vegna gat maður ímyndað sér að þegar farið væri að leggja fram nýtt frv. til leiklistarlaga í stað þeirra sem hafa verið í gildi frá 1977, ef ég man rétt, mundi markið vera sett hærra, það yrði ákveðið að nú mundi ríkið beita sér fyrir því að styðja enn frekar við þessa menningarstarfsemi en verið hefur. Þar á ég bæði við atvinnuleikhús svokölluð og þó ekki síður áhugaleikhús. En áhugaleikhúsin á Íslandi hafa borið keim af því kannski hve að atvinnuleikhúsin hafa verið ákaflega góð og af jafnháum gæðastaðli og við þekkjum. Það er alveg ótrúlegt hvað lítil leikfélög, eins og ég t.d. þekki á því svæði sem ég bý, í Keflavík --- ég tala nú ekki um Litla leikfélagið í Garði á sínum tíma --- gátu sett upp margar áhugaverðar sýningar. Þetta var fátt fólk. Það hafði mjög litla peninga umleikis, en áhuginn var ódrepandi og gæðin voru ótrúleg í mörgum þessara sýninga.

En mér finnst að þetta frv. sem við fórum mjög vel í gegnum á liðnu ári í menntmn. þó það yrði ekki afgreitt þá, sé kannski ekki alveg nógu metnaðarfullt fyrir hönd íslenskrar leiklistar. Ég vil tiltaka nokkur atriði, en að mörgum þeirra var einmitt gerð sérstök atlaga, má segja, í viðtölum gesta við menntmn. í fyrra vetur. Það kom glögglega fram að leikhúsfólki var mörgu ákaflega órótt vegna margra atriða þessa frv. sem ýmis hafa verið hér til umræðu í dag og við fundum glögglega að þetta mundi ekki bæta móralinn, ef svo má segja, meðal leikhúsfólks frá því sem verið hefur.

Að vísu hafa verið gerðar ákveðnar breytingar á frv. í sumar en mér finnst það satt að segja engan veginn vera nægjanlegt miðað við þær athugasemdir og vægi þeirra athugasemda sem komu fram við meðferð málsins í menntmn. á liðnu ári.

Ég ætla hér fyrst að gera að umtalsefni 5. gr. frv. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Á vegum Þjóðleikhússins skulu árlega farnar leikferðir sem víðast um landið.``

Ég vil ítreka mikilvægi þessarar greinar og minna á að það hefur reynst þessari menningarstofnun ákafleg erfitt hingað til að uppfylla þetta ákvæði. Þetta hefur reynst dýrt og fjárhag leikhússins ofviða. Ég tala nú ekki um leikferðir til annarra landa. Það hefur verið reynt að fara í slíkar ferðir en það hefur líka verið mjög dýrt og þungur baggi á leikhúsinu þau ár sem það hefur verið gert.

Ég hefði óskað að inn í þessa grein hefði bæst að gerð yrði sjónvarpsuppfærsla af a.m.k. einni leiksýningu Þjóðleikhússins á ári hverju og sýnd í íslenska ríkissjónvarpinu. Þetta hefur líka verið reynt og einstaka sinnum verið gert, þó að það hafi ekki verið sérstaklega bundið við Þjóðleikhúsið, og hefur tekist ákaflega vel til að mínum dómi. Mér finnst að það eigi virkilega núna, þegar við höfum reynsluna, að setja í lög að slíkt verði gert á vegum Þjóðleikhússins a.m.k. árlega og þar að auki svo vonandi hjá öðrum leikhúsum líka.

Ég get ekki verið sammála hv. 6. þm. Norðurl. e., sem ég er þó að flestu leyti sammála, um 6. gr. þar sem tiltekið er að þjóðleikhússtjóri sé skipaður til fimm ára í senn og að embættið skuli ætíð laust til umsóknar í lok hvers skipunartímabils, en að ekki sé í lagatextanum tekið fyrir að hægt sé að endurnýja skipun. Ef allir eru um það sammála að þessi maður hafi unnið ákaflega gott starf og almennur áhugi er á að hafa hann áfram þá fyndist mér mjög slæmt að með lagatexta væri komið í veg fyrir að slíkt væri hægt. En mér finnst að með því að taka það fram að embættið skuli ætíð auglýst þá sé tryggt að þarna verði skipt út ef á því er áhugi og fyrir því er grundvöllur og ég sætti mig fyllilega við það.

Varðandi 7. gr. um að menntmrh. skipi fimm manna þjóðleikhúsráð, þá finnst mér þar ganga aftur sú tilhneiging sem hefur verið ákaflega rík í þeim lagasetningum sem hæstv. núv. menntmrh. hefur beitt sér fyrir, þ.e. að miðstýra þessum hlutum sem mest úr ráðuneytinu. Ég varð vör við það þegar fólk kom til hv. menntmn. að gefa umsagnir á sl. ári að þótt undarlegt megi virðast þá voru flestir ánægðir með þá skipun sem nú er á þessum málum, þ.e. að þarna væru skipaðir menn á vegum stjórnmálaflokkanna á Alþingi. Flestum þótti það hafa reynst vel og flestum leist verr á að menntmrn. hefði algjört vald á því hverjir sætu í þjóðleikhúsráði, ef það ætti á annað borð að hafa það.

Í 15. gr. stendur merkileg setning, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnir veita fé til leiklistarstarfsemi í sveitarfélögum eftir því sem ákveðið er í árlegri fjárhagsáætlun þeirra.``

Svo mörg voru þau orð. Áður var kveðið á um það í lögum að sveitarfélög mættu ekki veita minna fé til starfandi leiklistar í bænum en ákveðið hefði verið að veita frá ríkinu eftir tillögum Bandalags ísl. leikfélaga. Nú er þessu breytt og sveitarfélögunum í rauninni algjörlega í sjálfsvald sett hvort þau styrkja leiklistarstarfsemi í bænum eða ekki. Ég verð að segja að mér finnst þetta vera afturför frá gildandi lögum. Var það ekki í hittiðfyrra sem sett voru ný lög um bókasöfn? Þá var hliðstætt ákvæði sett inn um að sveitarfélögum væri algjörlega í sjálfsvald sett hversu mikið þau styrktu bókasöfn og var rökstutt með því af hálfu menntmrh. að þetta gæfi þeim svigrúm til að veita meiri stuðning en áður hefði þekkst.

Það væri fróðlegt að heyra hvernig þar hefur til tekist þó að reynslan sé kannski ekki alveg orðin nógu löng. Ég verð að segja að ég sé ekki að neitt standi í vegi fyrir því að sveitarfélög megi styrkja leiklistarstarfsemi meira en ríkið gerir samkvæmt tillögum Bandalags ísl. leikfélaga í núgildandi lögum. Eina svigrúmið sem þetta veitir er til að afnema styrkina þegar að dómi sveitarstjórnarmanna stendur illa á við gerð fjárhagsáætlunar. Mér finnst þetta ekki vera ákvæði sem til framfara horfir um íslenska leiklist, sérstaklega úti um land.

Það fór ekkert á milli mála, eins og hér hefur komið fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., að ýmsir höfðu miklar áhyggjur af því að úr lögum var tekin upptalning á þeim atvinnuleikhúsum sem ríkinu bæri að styrkja. Að vísu hefur verið sett þarna inn breyting í 16. gr., með leyfi forseta:

,, Í þessum efnum skal taka sérstakt tillit til leiklistarstofnana og félaga sem lengi hafa notið fjárhagslegs stuðnings úr ríkissjóði.``

En ég verð að segja að mér hefði fundist sterkara fyrir þessi félög sem eru að berjast í bökkum ef nafn þeirra stæði í lögum og öllum væri ljóst að menntmrn. bæri að styrkja þau. Ég held að þá mundi þessu fólki líða betur. Við skulum bara nefna þau: Leikfélag Akureyrar og Leikfélag Reykjavíkur og líka má nefna Íslensku óperuna. Þau lentu á erfiðu árunum svokölluðu í miklum hallarekstri sem þau eru að berjast við. Þetta eru leikfélög sem hafa starfað af miklum metnaði. Leikfélag Reykjavíkur er t.d. með 100 manns á launaskrá og er fullkomið atvinnuleikhús sem hefur verið með mjög góðar sýningar, t.d. á liðnum vetri.

Ég er ekki sammála því sem hv. 14. þm. Reykv. sagði þegar hún bar þetta saman við Alþýðuleikhúsið sem hefði einu sinni verið starfandi sem atvinnuleikhús, Loftkastalann eða leikfélag Húsavíkur. Þessi félög eru rekin á allt öðrum grunni. Þau voru aldrei með fastlaunað fólk, fastlaunasamninga við leikara. Þau gerðu hins vegar mjög marga góða hluti. Ef við tökum sérstaklega Loftkastalann þá hafa þar náttúrlega verið mjög góðar sýningar. En flestir þeir leikarar sem taka þar þátt í sýningum eru annaðhvort fastlaunafólk hjá Þjóðleikhúsinu eða eftirlaunafólk. Það er ekki um það að ræða að Loftkastalinn, þó hann sé gott leikhús, sé með fastlaunasamninga við leikara. Þess vegna finnst mér ekki hægt að tala um það leikhús í sama orðinu og t.d. Leikfélag Reykjavíkur.

Mér fyndist sterkara að telja a.m.k. þessi þrjú leikhús upp í lagatextanum og ég vona að hv. menntmn. gefist tækifæri til þess í meðförum milli umræðna að koma með breytingartillögur við lagatextann þessa efnis.