Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:19:28 (603)

1998-10-22 12:19:28# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:19]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Tómasi Inga Olrich er nokkuð í mun að gera málflutning minn tortryggilegan. Ég vil hins vegar benda honum á að ræða mín er ekki mikið breytt frá ræðu minni fyrir um það bil ári þegar frv. kom fram, einfaldlega vegna þess að málið er svo ótrúlega líkt og nánast hið sama.

Hv. þm. virðist ekki koma auga á þann mun sem er á milli menningarstarfseminnar úti á landi og þeirrar sem er á höfuðborgarsvæðinu. Hann virðist ekki átta sig á því að sú starfsemi er í öllu tilliti viðkvæmari. Þegar fjallað var um málið kom fram hjá mörgum viðmælenda hv. menntmn., og hann hlýtur að hafa heyrt það rétt eins og ég, að þeir höfðu ákveðnar áhyggjur vegna þess að staðan væri viðkvæmari. Menn höfðu áhyggjur af því að þeirra yrði ekki lengur getið í lögum vegna þess að í því felst ákveðin trygging. Tryggingin felst í því að það þarf a.m.k. að rökstyðja af hverju ekki er um fjárframlög að ræða. Ef svo er ekki, eins og hjá Leikfélagi Reykjavíkur, þá eru ákveðnar skýringar á því, þ.e. að gerður hafi verið samningur. Af hverju ætli ríkið hafi fundið sig knúið til að gera þennan samning? Jú, það hafði ákveðnar skyldur samkvæmt lögum. Um þetta snýst málið, að mörkuð sé pólitíska stefna um það gagnvart hverju ríkið á að hafa skyldur.