Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:21:44 (604)

1998-10-22 12:21:44# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:21]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ríkið hafði skyldur gagnvart Leikfélagi Reykjavíkur af því að það stóð í greininni og þess vegna gat það fellt niður framlög til Leikfélags Reykjavíkur. Þetta er nú orðinn frekar sérkennilegur hringlandaháttur. Dæmið sýnir fram á að ekki sé fólgin trygging í því að hafa nafnið inni í 2. gr. núgildandi laga fyrst í ljós hefur komið að Leikfélag Reykjavíkur fær ekki stuðning og kvartar undan því. Það hefur komið skýrt fram á fundum menntmn. að Leikfélag Reykjavíkur kvartar sáran undan því að fá ekki framlög. Í hverju er þá þessi trygging fólgin sem hv. þm. var að tala um hér áðan? Tryggingin er að sjálfsögðu fólgin í samningunum sem gerðir eru. Það hafa verið gerðir samningar við Leikfélag Akureyrar og stendur ekki til að gera breytingu á því. Um það hefur engin yfirlýsing komið. Þvert á móti er fullur vilji fyrir því að styrkja áframhaldandi menningaruppbyggingu á Akureyri.

Vilja menn ekki horfast í augu við þá einföldu staðreynd að ríkið hefur stóraukið umsvif sín á öllum sviðum úti á landi í náttúruvísindum, menningarstarfsemi og háskólakennslu? Ef menn vilja ekki horfast í augu við þetta þá hafa þeir ekki mikinn skilning á byggðastefnu.