Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:30:39 (609)

1998-10-22 12:30:39# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:30]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að sönnu manneskja miðstýringar hvað það snertir að ég tel að ríkið eigi að veita ákveðna forustu, að ríkið eigi að reka ákveðna menningarpólitík og að ríkið eigi að beina því til sveitarfélaganna að þeim beri ákveðin skylda til að standa við bakið á ákveðinni menningarstarfsemi. Þannig hefur þetta verið varðandi leiklistarstarfsemi og auðvitað hefur stundum verið vel staðið við bakið á litlum leikfélögum úti um land af sveitarstjórnum og verður vonandi í framtíðinni.

En það hefur líka verið misbrestur á því og ég veit dæmi þess að sveitarfélög hafa kvartað yfir þeirri skuldbindingu sem sett hefur verið á þau í lögum um að þau verði að leggja fram a.m.k. jafnháa fjárhæð og ríkið. En nú er því létt af þeim og auðvitað er sagt eins og hér hefur áður verið gert við afgreiðslu annarra frumvarpa: ,,Það er gert til þess að veita ákveðið svigrúm og styrkja stöðu sveitarfélaganna.`` En ég er fyrst og fremst að hugsa um stöðu leikfélaganna þegar ég kvarta.