Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:33:42 (611)

1998-10-22 12:33:42# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:33]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Í þessu frv. er margt til bóta. Hér er verið að hverfa frá ýmsum hlutum sem hafa verið menningu til baga. Þegar maður les frv. þá eru samt einstök atriði dálítið undarleg eins og t.d. 14. gr. þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Auk framlaga til Þjóðleikhússins veitir Alþingi árlega fé í fjárlögum til stuðnings annarri leiklistarstarfsemi, bæði atvinnumanna og áhugaleikfélaga.``

Þarna er verið að setja kvöð á Alþingi framtíðarinnar, því að þessi lög gilda væntanlega áfram, um að veita fjármagn á fjárlögum. Ég get ekki séð að þetta hafi nokkuð að segja, ekki nokkurn skapaðan hlut því að Alþingi framtíðarinnar hefur að sjálfsögðu fjárveitingavald og ræður því algjörlega sjálft hvort það setur peninga í þessa starfsemi eða ekki.

Það sama á við 12. gr. þar sem talað er um að kostnaður af rekstri Þjóðleikhússins greiðist úr ríkissjóði. Þetta er að sjálfsögðu ákvörðunarvald Alþingis í framtíðinni þannig að þessi ákvæði bæði eru tóm.

Svo hefur hér verið rætt nokkuð um það að sveitarfélög skuli veita fé til leiklistarstarfsemi. Þar gildir það sama því að sveitarfélögin hafa forræði á sínu fé og þau ráða því alveg sjálf hvort þau setja peninga í leiklistarstarfsemi eða ekki þannig að hér er dálítið mikið af óskaákvæðum.

Í 3. gr. og í 13. gr. kemur fram ákveðin steinsteypudýrkun. Þjóðleikhúsið er eign íslensku þjóðarinnar. Þetta er eitthvað eldgamalt ákvæði þegar menn héldu að steinsteypa væri eitthvað mikilvægt. Í fyrsta lagi eru þarna spurningar um hugtök eins og: Hvað er eign og hvað er íslenska þjóðin? Þetta eru hugtök sem eru notuð dálítið oft en menn gera ekki grein fyrir. Íslenska þjóðin, eru það menn sem hafa íslenskan ríkisborgararétt, fólk sem er úti um allan heim og hefur jafnvel aldrei á ævinni komið til Íslands eða er átt við fólk sem býr á Íslandi, þ.e. líka útlendinga? Hvað er íslenska þjóðin? Og Þjóðleikhúsið er eign. Hvað þýðir eign? Ef ég á eitthvað þá má ég nota það. En ég get ekki labbað inn í Þjóðleikhúsið, tel ég mig þó vera hluta af íslensku þjóðinni, því að Þjóðleikhúsinu er væntanlega læst á nóttunni. Ég get því ekki notað Þjóðleikhúsið að eigin vilja eins og aðrar eignir mínar þannig að þetta er dálítið skrýtið ákvæði.

Þessu tengt er 13. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Þjóðleikhúsbyggingin stendur ekki til tryggingar skuldbindingum Þjóðleikhússins.``

Það er sem sagt verið að segja að steinsteypan þarna á ákveðnum stað í bænum sé eitthvað sérstök. Leikhús er að sjálfsögðu ekki steinsteypa þar sem leikstarfsemi fer fram í, alls ekki. Það er til mikil og blómleg starfsemi sem fram fer í tjöldum. Ég nefni sirkusa og annað slíkt. Það er líka til starfsemi sem fer fram undir berum himni. Ég nefni þjóðhátíðir og annað. Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum er mjög merkileg menningarstarfsemi og þar er engin bygging, þar eru bara tjöld og meira að segja fer mest fram undir berum himni í roki og rigningu oft og tíðum. (Menntmrh.: Alþingi fór reyndar lengi fram undir berum himni.) Já, það er líka ágætisinnlegg í umræðuna.

Herra forseti. Ég kom aðallega í pontu til að ræða um stjórnskipunina og skipulagið. Í 6. gr. stendur, með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra skipar þjóðleikhússtjóra til fimm ára í senn, að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs.

Þjóðleikhússtjóri er stjórnandi leikhússins og markar listræna stefnu ...`` o.s.frv.

Þá kann væntanlega sá maður sem ráðinn er þjóðleikhússtjóri að halda með vísan í 6. gr. að hann eigi að stjórna. Það mundi maður halda. En svo kemur í 7. gr., með leyfi forseta:

,,Menntamálaráðherra skipar fimm manna þjóðleikhúsráð.``

Gott og vel. Það er eitthvert ráð sem á að ráðleggja einhverjum væntanlega, en svo stendur í 2. mgr. 7. gr., með leyfi forseta:

,,Þjóðleikhúsráð er stjórnarnefnd Þjóðleikhússins ...``

Og hvað skyldi það nú þýða? Ef ég yrði kjörinn í þjóðleikhúsráð, sem ég reikna alls ekki með, þá mundi ég lesa út úr þessari setningu að ég ætti að stjórna sem stjórnarnefndarmaður. En þá lendi ég í vandræðum. Hver á að ráða, þjóðleikhússtjóri eða þjóðleikhúsráð? Hver á að ráða? Þetta leiðir til vandræðagangs, stjórnunarlegra mistaka og þess að mál frestast, fást ekki í gegn, átök myndast, persónuleg átök og enginn ber ábyrgð vegna þess að þjóðleikhússtjóri getur ekki borið ábyrgð gagnvart ráðherra því að hann segir: ,,Þjóðleikhúsráð tók af mér völdin.`` Þjóðleikhúsráð ber heldur ekki ábyrgð gagnvart ráðherra vegna þess að það mun segja: ,,Þjóðleikhússtjóri fór bara ekki eftir því sem við sögðum.`` Með þessum hætti er því vald og ábyrgð beggja aðila minnkuð, ábyrgðin líka. Ég legg til að menntmn. sem fær frv. til umsagnar skoði þann möguleika að menntmrh. skipi fimm manna þjóðleikhúsráð og það ráði og reki þjóðleikhússtjóra þannig að það beri ábyrgð á honum og hann beri ábyrgð gagnvart því. Síðan ráði þjóðleikhússtjóri annað starfsfólk og reki það. Og því þarf að bæta inn í 6. gr.: ,,Hann ræður og rekur aðra starfsmenn leikhússins``.

Þetta var um stjórnskipunina og það er mjög víða í opinberri stjórnsýslu að skipuritið er ekki hreint sem leiðir til vandræðagangs í stjórnun þannig að ákvarðanir fást ekki teknar og enginn ber ábyrgð.

Herra forseti. Það er svo merkilegt að við hér á landi búum við ákaflega blómlegt leikhúslíf og menningarlíf yfirleitt og það merkilega er að mest af því er ekki í þessum opinbera geira. Mörg leikhús hafa sprottið upp, myndlistarsýningar og annað slíkt sem njóta lítilla eða engra styrkja og veita um leið hinum opinbera leiklistarhluta ákveðna samkeppni.

Maður spyr sig: Hvers vegna í ósköpunum þarf að taka peninga af skattgreiðendum, taka peninga úr öðrum vasa borgarans og borga honum til baka með niðurgreiðslu á miðaverði? Af hverju í ósköpunum þarf að gera þetta? Af hverju borgar maðurinn bara ekki sjálfur sína leikhúsferð? Það skyldi þó ekki vera að einhver vilji stýra fólki inn í ákveðna menningu? Það skyldi ekki vera að menn vilji hafa vit fyrir borgaranum, hafa forsjá fyrir honum, sjá til þess að hann sæki ákveðnar sýningar en aðrar ekki? Það skyldi nú ekki vera?

Ef við tökum dæmi um frægt leikhús eins og Vínaróperuna þá nýtur hún gífurlegra styrkja frá austurríska ríkinu. Ég man ekki tölurnar en þær eru óskaplega háar. Þessir styrkir eru að sjálfsögðu borgaðir af öllum Austurríkismönnum, líka lágtekjufólkinu, í formi virðisaukaskatts, söluskatts og annars slíks. En hverjir sækja þessar sýningar? Miðaverðið í óperunni er svo hátt í Austurríki að það geta raunar ekki aðrir en meðaltekju- eða hátekjumenn sótt sýningarnar. Þetta kemur því út þannig að lágtekjufólkið er að niðurgreiða menningu fyrir hátekjufólkið. Þetta kemur þannig út og oft og tíðum gerist þetta svona, líka á Íslandi, að fólk sem borgar t.d. virðisaukaskatt, borgar hærra vöruverð, hefur ekki efni á því eða ekki tíma til að sækja leiksýningar vegna þess að það er svo önnum kafið við að vinna fyrir þessum leiksýningum sem aðrir njóta.

Svo er til mjög mikið af menningu sem almenningur stundar en engum dettur í hug að styrkja. Þar á ég t.d. við menningarstarfsemi sem fram fer á ölkrám eða þjóðhátíðum eða einhverjum hátíðum úti á landi sem er lítt eða ekkert styrkt. Og spurningin er: Af hverju í ósköpunum erum við að taka peninga úr öðrum vasa skattgreiðenda og láta hann fá þá ef hann sækir ákveðna sýningu? Hvers vegna þarf þetta? Af hverju sækir fólkið ekki menninguna sjálft?

Hér var áðan rætt um hlut sveitarfélaga. Í 15. gr. stendur, með leyfi herra forseta:

,,Sveitarstjórnir veita fé til leiklistarstarfsemi í sveitarfélögum eftir því sem ákveðið er í árlegri fjárhagsáætlun þeirra.``

Sumir hv. þm. töldu að þetta leiddi til þess að ekki yrði um styrk að ræða. Látum okkur nú sjá, af hverju? Getur verið að sveitarstjórnir vilji kannski frekar leggja meiri áherslu á menntun barna sinna í grunnskólunum, veita þeim betri kennslu? Getur verið að þeir vilji kannski opna barnaheimili árinu fyrr en seinna? Getur verið að menn hafi kannski aðrar áherslur en akkúrat þær að hafa einhverja hámenningarlega leiklistarstarfsemi sem fólkið hefur kannski engan áhuga á? Hvernig væri að spyrja fólkið sjálft hvað það hefur áhuga á að sjá og hætta að taka peninga úr öðrum vasa þess til láta það sjá eitthvað sem einhverju hámenntuðu fólki er þóknanlegt? Það er verið að búa til ákveðna menningu með þessum hætti sem ekki er endilega menning fólksins. Ég bendi á að orðið ,,menning`` er dregið af ,,maður`` eða ,,menn`` og það sem menn gera er menning. Menning er ákaflega vítt hugtak og alls ekki bara það að hafa sinfóníuhljómsveitir eða þjóðleikhús.