Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:51:21 (613)

1998-10-22 12:51:21# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:51]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Styrkir til leiklistarstarfsemi hafa verið ákaflega mismunandi. Styrkir á hvern miða eru ákaflega mismunandi. Ég er reyndar ekki með upplýsingar um það en mér skilst að Loftkastalinn fái verulega miklu minni styrk á hvern aðgöngumiða en t.d. Borgarleikhúsið eða Þjóðleikhúsið. Það er því ekki jafnræði á. Menn greiða ekki bara atkvæði með fótunum heldur hjálpar ríkið líka pínulítið til hvert menn fara.

Varðandi það að öll leiklist sé styrkt vil ég leyfa mér að efast um það. Það er mikið af leiklist sem fer fram án opinberra afskipta, t.d. á veitingastöðum o.s.frv. Ég vil nefna stað eins og Vegas og slíka sem örugglega fá ekki styrki til leiklistarstarfsemi sinnar.

Það er því alls konar menning í gangi og hún er ýmist styrkt eða ekki styrkt og það sem er vissu fólki þóknanlegt er styrkt sérstaklega mikið til að stýra öðru fólki inn í það.

Ég spyr: Af hverju er ekki nóg að fólkið velji sjálft? Af hverju þarf að taka úr öðrum vasanum í formi skattgreiðslna og setja í hinn vasann fyrir þá sem njóta?