Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:54:33 (615)

1998-10-22 12:54:33# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:54]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. segir að gerðar séu mismunandi kröfur til ýmissa sýninga. Ég spyr: Í hvaða formi eru þær kröfur? Er hann virkilega að segja að þegar maður fer á sýningu hjá Loftkastalanum þá geti maður vænst þess að fá lakari leiksýningu, lakara listrænt gildi leiksýningarinnar? Eða hvað felst í því að gera aðrar kröfur? Er það þannig að menningin sem þeir eru að framreiða sé lakari eða verri en sú sem Þjóðleikhúsið framreiðir? Ég vil leyfa mér að mótmæla þessu.

Og það að Loftkastalinn sé að hýsa ýmsa leikhópa --- hvað felst í þessu orði að hýsa? Er þetta fólk ekki að koma þarna fram með leiksýningar sínar, og eru þær ekki fullkomlega jafngildar öðrum leiksýningum sem t.d. Þjóðleikhúsið kemur fram með?

Ég skil ekki svona hugsun. Ég skil ekki hvernig hægt er að leggja mat á að eitthvað eitt sé mikilvægara eða merkilegra en eitthvað annað.