Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:55:41 (616)

1998-10-22 12:55:41# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:55]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að vekja athygli hv. þm. á því að það var ekki ég sem var að leggja á mat. Það er kannski hann sem er fyrst og fremst að leggja á mat.

Við erum hins vegar að fjalla um frv. til laga þar sem tíundaðar eru ýmsar skyldur Þjóðleikhússins. Þær liggja fyrir í textanum og þar getur hv. þm. kynnt sér þær. Þessar skyldur eru ekki lagðar á herðar annarra leikhúsa a.m.k. ekki Loftkastalans sem er hús.

Ég tók eftir því áðan að hv. þm. fjallaði sérstaklega um hús þegar hann var að tala um Þjóðleikhúsið. Ég les þetta ekki þannig að Þjóðleikhúsið þurfi endilega að vera hús. Þjóðleikhúsið er bara það leikhús sem framið er og er að vilja og með vitund og stuðningi allrar þjóðarinnar. Það getur verið í hvaða húsi sem er.

Hins vegar er Loftkastalinn fyrst og fremst hús. Ég var ekki að taka afstöðu til þess hvaða listræn starfsemi fer þar fram innan dyra, svo langt í frá. Þar eru nefnilega ýmsar ágætar sýningar en það er dálítill munur á kröfunum sem gerðar eru. Það er dálítill munur á kröfunum sem gerðar eru annars vegar til Þjóðleikhúss, sem hefur ákveðnar skyldur, og hins vegar húss, sem hefur þá ákveðnu starfsemi að taka til sín og hafa á fjölunum hjá sér marga leikhópa, ýmsa mjög góða.

Mér finnst hv. þm. hafa lent í dálitlum ógöngum í málflutningi sínum. Mér finnst hann hafa verið að bera saman, eins og menn segja stundum, epli og appelsínur. Og það getur vel verið að honum finnist það eðlilegur samanburður. Mér finnst það ekki. Mér finnst sá samanburður ekki einu sinni sanngjarn. Mér finnst hann ósanngjarn og mér finnst ósanngjarnt að bera saman annars vegar gróið Þjóðleikhús og leikhópa sem búa við allt aðrar ytri aðstæður, þó að framlag þeirra til menningar okkar sé jafnmikilvægt og oft hefur komið fram í umræðunum.