Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:58:04 (617)

1998-10-22 12:58:04# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:58]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Ég ætla ekki að blanda mér í síðasta þátt þeirra um það sem fer fram innan dyra í leikhúsunum og hvernig eigi að styrkja það í sjálfu sér, það er matsatriði hverju sinni.

En það er alveg ljóst að allir aðilar eiga sama rétt til þess að sækja um styrk í ríkissjóð. Um það hefur þetta mál snúist að verulegu leyti, hvort stilla beri þessu frv. upp með þeim hætti að réttur einstakra aðila sé skilgreindur öðruvísi en annarra. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hefur verið málsvari fyrir því að í frv. verði tekið af skarið um að sumir yrðu betur settir en aðrir.

Ég held hins vegar að það leiði okkur í ógöngur og þótt að hv. þm. bregði fyrir sig að byggðasjónarmið eigi að ráða í þessu tilliti þá held ég að það dugi ekki til þess að þeirrar sanngirni sé gætt í þessari lagasetningu sem nauðsynleg er til að ekki verði um óeðlilega mismunun að ræða. Það standa allir aðilar jafnir fyrir í frv. en í 2. mgr. 16. gr. er hins vegar sagt að taka beri sérstakt tillit til þeirra sem hafa unnið sér ákveðinn sess á undanförnum árum.

Herra forseti. Ekki er hægt að segja að í þessum umræðum hafi það komið fram að stjórnarandstaðan sem slík sé einróma í gagnrýni sinni á frv. Það eru nokkur atriði sem eru lykilatriði í frv. og menn hafa rætt þau, eins og 6. gr. hvort setja beri tímamörk á ráðningartíma þjóðleikhússtjóra, hvernig þjóðleikhúsráð eigi að vera skipað og atriði varðandi 16. gr. hvort þar beri að tíunda einstaka aðila eða ekki.

[13:00]

Þegar ég hlusta á ræður stjórnarandstæðinga kemur fram að þeir eru alls ekki samstiga í gagnrýni sinni á frv. þegar litið er til þessara einstöku greina. Sumir telja að eðlilegt sé að hafa þetta eins og mælt er fyrir um í 6. gr., þ.e. að embætti þjóðleikhússtjóra skuli auglýst á fimm ára fresti en ekki sett þak á ráðningartímann að öðru leyti. Aðrir telja að setja beri þak o.s.frv. Það er því ómögulegt að draga þá ályktun af þessum umræðum að hér séu skýr skil á milli annars vegar þeirra sem styðja ríkisstjórnina og hins vegar þeirra sem eru á móti ríkisstjórninni.

Menn hafa komið hér og lýst skoðun sinni á frv. og einstökum greinum og það er ljóst að margir sem hér hafa talað telja, eins og kom fram á fundi mínum með forustumönnum úr leiklistarlífinu, að þær breytingar sem lagðar eru til í frv. séu til þess fallnar að skapa meiri sátt um það en var á síðasta þingi.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði, og einnig vék hv. þm. Pétur Blöndal að því hvort vera kynni að stjórnskipanin samkvæmt frv. væri næsta óljós og lesa mætti úr 6. og 7. gr. frv. að við blasti að ágreiningur yrði á milli þjóðleikhúsráðsins annars vegar og þjóðleikhússtjórans hins vegar. Kannski er aldrei hægt að orða svona hluti nægilega skýrt í lögum, og lagatexti þarf að hafa ákveðna sveigju þegar að atriðum eins og þessum kemur, en ég tel að í grg. sé tekið af skarið þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta, um 6. gr.:

,,Í meginatriðum er ekki um að ræða mikla breytingu frá gildandi lögum, en ætlast er til að orðalag greinarinnar gefi skýrt til kynna að þjóðleikhússtjóri er ótvíræður stjórnandi stofnunarinnar og ber ábyrgð á starfi hennar í samræmi við það.``

Og síðan segir líka í athugasemdum um 7. gr.:

,,Rétt er að ítreka það sem segir í athugasemd um 6. gr. hér að framan, þar sem áhersla er lögð á forustuhlutverk og ábyrgð þjóðleikhússtjóra. Hlýtur samstarf þjóðleikhúsráðs og þjóðleikhússtjóra að taka mið af því.``

Í 9. gr. er tekið af skarið um að þjóðleikhússtjóri ræður alla starfsmenn Þjóðleikhússins. Það er því ljóst þegar menn lesa þetta, án þess að líta á það með sérstökum tortryggnisgleraugum, að endanlega ábyrgðin er hjá þjóðleikhússtjóranum og hann ber meginábyrgðina á starfsemi Þjóðleikhússins.

Hvað varðar leiklistarráð sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir gerði að umtalsefni, þá er lagt til að það verði þriggja manna ráð, umsagnaraðili fyrir menntmrn., en ekki fjölskipuð nefnd sem komi saman einu sinni eða tvisvar á ári, og þá sem umræðuvettvangur. Leiklistarsamband Íslands gegnir því hlutverki núna að mati ráðuneytisins en hins vegar telur ráðuneytið að nauðsynlegt sé að hafa formlegan umsagnaraðila um ýmis málefni sem varða leiklist í landinu og þess vegna er lagt til að leiklistarráð sé starfandi. Það er eðlilegt að mælt sé fyrir um það í lögum, að mínu mati, að það sé samráðsaðili fyrir menntmrn. og ríkisvaldið gagnvart leiklistinni í heild og að þessi samráðsaðili sé leiklistarráð.

Ég tek undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur þegar hún segir um 16. gr. að ekki sé unnt að gera upp á milli félaga með því að tíunda einstök félög í greininni. Það verði að hafa þetta opið með þessum hætti til þess að jafnræðis sé gætt og mér finnst, eins og ég gat um áður, að þau rök sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hefur haldið fram til að hnekkja þessari skoðun vegi ekki nægilega þungt til þess að ég telji skynsamlegt að breyta greininni frá því sem nú er. Það hefur einnig komið mjög glöggt fram hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich að núverandi löggjöf, leiklistarlöggjöf frá 1977, tryggir að sjálfsögðu ekki að Leikfélag Reykjavíkur fái styrk úr ríkissjóði. Hins vegar hefur verið samið við Íslensku óperuna, sem ekki er nefnd í þessum lögum, og hún er með fimm ára samning við ríkissjóð fyrir tilstilli menntmrn. og með samþykki Alþingis þar sem skapaður er grundvöllur fyrir starfsemi Íslensku óperunnar. Sömu sögu er að segja um samning sem menntmrn. hefur gert við Akureyrarbæ um menningar- og listastarfsemi þar, að hann er gerður og gildir til ákveðins tíma þótt ekki sé getið um það í lögum að gera beri slíkan samning. Það er því alfarið rangt að halda því fram að með því að hafa þetta eins og við leggjum til sé verið að sníða af einhverjum aðilum eða svipta þá réttindum.

Ekki er lengur getið um það í leiklistarlögum að rekinn skuli Leiklistarskóli Íslands en það hefur enginn vakið máls á því hér að ætlunin væri að leggja þann skóla niður þótt hans sé ekki sérstaklega getið í leiklistarlögum. Auðvitað er það ekki ætlunin. Skólinn starfar á grundvelli almennra laga og nú er, eins og vitað er, verið að flytja hann á háskólastig og hans er ekki lengur getið í leiklistarlögunum. En að túlka það sem svo að ríkisvaldið hafi í hyggju að leggja niður leiklistarnám í landinu er út í hött. Það er jafnmikið út í hött og að segja að það að hverfa frá því að hafa einstök félög nefnd í lögunum þýði að menn ætli að setja þau út á guð og gaddinn.

Varðandi það sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir nefndi um sjónvarpsútsendingar, að geta ætti þess sérstaklega í lögunum að árlega skyldi færa eina sýningu Þjóðleikhússins upp í sjónvarpi, þá held ég að það sé ekki lagasetningarákvæði. Ríkissjónvarpið hefur hins vegar sent út sýningar eins og þær hafa verið færðar upp í Þjóðleikhúsinu og ég held að það mælist mjög vel fyrir. Meðal svokallaðra fagmanna er reyndar ágreiningur um mál af þessu tagi og telja þeir að taka verði upp hverja leiksýningu og breyta henni fyrir sjónvarpssendingar. En ég er þeirrar skoðunar að þessar sýningar sem verið hafa úr Þjóðleikhúsinu hafi gefið mjög góða raun og það beri að halda áfram á sömu braut og það eigi að takast gott samstarf milli Þjóðleikhússins og sjónvarpsstöðvanna um það efni.

Hér hefur verið rætt um sveitarstjórnir og hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir nefndi þær einnig. Með breytingum á stjórnarskránni frá 1995 segir í 78. gr.: ,,Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.`` Og síðan: ,,Tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.`` Þetta er nýmæli í stjórnarskránni og ég lít þannig á að menn eigi, m.a. í lögum af þessu tagi, að taka mið af þessu ákvæði stjórnarskrárinnar og mæla ekki fyrir um það hvernig eða hve háar fjárhæðir sveitarstjórnir leggi til einstakra málefna, heldur orða það á þann hátt sem gert í 15. gr. Annað væri ofstjórn af hálfu löggjafarvaldsins miðað við það sem löggjafarvaldið sjálft hefur samþykkt með nýrri stjórnarskrá.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðurnar frekar. Ég held að allt það hafi komið fram sem máli skiptir og ég var sérstaklega spurður um. Ég vil þakka málefnalegar umræður og ég tek undir með hv. þingmönnum um að gróskumikið leiklistarlíf er í landinu og það mun halda áfram að þróast. Og það er ekki á Alþingi sem við ákveðum hve gróskan er mikil, það er úti í leikhúsunum sjálfum, meðal leikaranna og síðast en ekki síst meðal áhorfendanna, meðal almennings sem sækir leiksýningar mjög mikið, hvort sem þær eru styrktar af hálfu ríkisins eða ekki, og vonandi verður svo áfram. En ég tel hins vegar að þetta frv. skapi leiklistarstarfseminni nútímalegri starfsramma og þess vegna muni það enn bæta leiklistarlífið og stuðla að enn frekari grósku í leiklistarstarfsemi hér á landi.