Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 13:09:20 (618)

1998-10-22 13:09:20# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[13:09]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í lok umræðunnar og vegna orða menntmrh. árétta að ég var ekki bara að tala um suma, ég var fyrst og fremst að tala um Leikfélag Akureyrar og Bandalag íslenskra leikfélaga vegna þess að ég hef verið að biðja um ákveðna pólitík inn í frv. Og það er hægur vandi vegna þess sem hæstv. ráðherra sagði um jafnræðið, að ganga þannig frá málum að fulls jafnræðis sé gætt þó að menn gæti byggðasjónarmiða einnig. Það þarf ekki að vera neitt annað en jafnræði í því.

Ég talaði mikið um landshlutaleikhús í fyrra en hef ekki haft jafnmikinn tíma til þess af ýmsum ástæðum við þessa umræðu, ég vék reyndar að þeim áðan, landshlutaleikhús sem hefðu skilgreindu hlutverki að gegna og yrðu að uppfylla tilteknar kröfur. Þetta gera önnur Norðurlönd til að styrkja leiklistarstarfsemina úti um landið. Þetta er hlutur sem ég vil sjá að við gerum einnig.

Leikfélag Akureyrar hefur verið vísir að slíku landshlutaleikhúsi. Það hefur verið eina atvinnuleikhúsið úti á landi og hefur skapað þann bakhjarl fyrir leiklistarlífið á Norðurlandi sem nauðsynlegur hefur verið. Þetta þyrftum við að sjá víðar og það er með þessu móti, herra forseti, sem ég vil sjá aðkomuna að þessu máli og í því felst ekkert annað en jafnræði. Ekki bara jafnræði á milli leikhúsa heldur líka jafnræði á milli þegnanna sem allir ættu þá kost á góðu leikhúsi hvar svo sem þeir búa á landinu.