Aðlögunarsamningur við fangaverði

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 13:42:02 (623)

1998-10-22 13:42:02# 123. lþ. 15.92 fundur 73#B aðlögunarsamningur við fangaverði# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[13:42]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að taka þetta mál upp og vekja athygli þingsins á þeirri stöðu sem er uppi í tryggingamálum fangavarða og þeim hnúti sem kjaramál þeirra eru komin í.

Fangavarðafélagið á aðild að SFR, Starfsmannafélagi ríkisstofnana, sem samdi um nýtt launakerfi í síðustu kjarasamningum. Þetta launakerfi byggir á því að gerðir séu svokallaðir aðlögunarsamningar inni á hverri stofnun fyrir sig. Á sínum tíma stóð mjög í stappi um aðkomu stéttarfélaganna að slíkum samningum enda vildu menn ekki lúta alhliða forstjóravaldi. Menn vissu sem var að forstjórar eru misjafnir. Sumir sýna mjög mikla óbilgirni í samskiptum við starfsfólk sitt og þess vegna vildu stéttarfélögin tryggja félagslega aðkomu svo þessir forstjórar hefðu félagslegt aðhald við samningaborðið.

Framkvæmd þessara aðlögunarsamninga hefur gengið tiltölulega vel. 90% félagsmanna í SFR hafa gengið frá aðlögunarsamningum og á vegum félaganna er unnið að því að ljúka þessum málum. En það þarf tvo til og þar á meðal fangelsisstjóra ríkisins. Hann hefur sýnt slíka óbilgirni í þessu máli að ástæða er til að hafa verulegar áhyggjur af því. Hann er að semja við öryggisstétt sem býr við lakari kjör en aðrar öryggisstéttir. Hann er að semja við starfsstétt sem sinnir mjög erfiðu starfi sem gerir miklar kröfur og hefur verið látin sæta skerðingu á starfsréttindum og tryggingum. Nú, þegar fangaverðir missa þolinmæðina og hyggjast hverfa til annarra starfa leyfir fangelsismálastjóri sér að segja í blaðaviðtali að þetta geti komið sér illa en hægt sé að bjarga slíkum málum. Hvað á að gera? Á að flytja inn fangaverði frá Kasakstan eða Úkraínu? Hvernig ætlar hæstv. dómsmrh. að bjarga málum?