Aðlögunarsamningur við fangaverði

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 13:44:46 (624)

1998-10-22 13:44:46# 123. lþ. 15.92 fundur 73#B aðlögunarsamningur við fangaverði# (umræður utan dagskrár), MF
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[13:44]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðna Ágústssyni fyrir að taka þetta mál upp á þingi. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem athygli okkar er vakin á því hversu léleg launakjör fangaverðir hafa búið við á undanförnum árum. Í vor var haldin ráðstefna þar sem fjallað var um heilbrigðismál innan fangelsanna og þá fór fulltrúi fangavarða m.a. yfir það hversu mikill munur væri á kjörum fangavarða hér á landi og hjá þeim þjóðum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Þegar farið var að vinna að þessum aðlögunarsamningum held ég að flestir hafi gert sér vonir um að ákveðin leiðrétting fengist í gegnum þá. Það er alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra segir að forstöðumönnum er óheimilt að fara út fyrir fjárlagaheimildir. En ef vilji er fyrir hendi til þess að breyta þessu þá eigum eftir að afgreiða fjáraukalög fyrir þetta ár og fjárlög fyrir næsta ár og því hægt að taka á þessum málum ef viljinn er til staðar. Vilji er allt sem til þarf.

Við gerum mjög miklar kröfur til þessarar stéttar, langt umfram það sem þekkist annars staðar. Fangaverðir þurfa ekki aðeins að sinna störfum sem gæslumenn. Þeir þurfa líka að sinna sálgæslu og hluta heilbrigðisþjónustunnar. Þeir þurfa í dag að inna af hendi mörg verkefni sem tíðkast hvergi annars staðar, a.m.k. ekki hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við. Það er með ólíkindum og sem betur fer sjaldgæft að sjá aðra eins lítilsvirðingu yfirmanns á störfum undirmanna sinna og var í ummælum fangelsismálastjóra í Morgunblaðinu 14. október. Það er sem betur fer sjaldgæft en mér fyndist það í raun næg ástæða til þess að veita þeim yfirmanni áminningu til að slíkt gerist ekki aftur og að hann komi fram við undirmenn sína af virðingu og sanngirni.