Aðlögunarsamningur við fangaverði

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 13:49:26 (626)

1998-10-22 13:49:26# 123. lþ. 15.92 fundur 73#B aðlögunarsamningur við fangaverði# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[13:49]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það má nefna fjölmargar brotalamir í starfskjörum fangavarða. Alvarlegust er sú staðreynd að þeir búa ekki við nægilegt öryggi á vinnustað og ekki nægar tryggingar ef þeir verða fyrir slysum eða árásum af hendi fanga, nokkuð sem því miður gerist tíðar á fíkniefnaöld. Þeir njóta ekki varnar síns atvinnurekanda. Á ýmsum sviðum mætti nefna dæmi um hve óásættanleg kjör fangavarða eru en hitt er með ólíkindum hve langt er seilst til að skerða þessi kjör.

Eitt einfalt dæmi er að til skamms tíma höfðu fangaverðir frímiða í sund. Smámál kann einhver að segja enda 200 þús. kr. á ári eða þar um bil. Nú er líka búið að hirða þetta af þeim. Ákvörðun um það var tekin af mönnum sem ég man ekki betur en reistu sjálfum sér ágæta líkamsræktarstöð í Stjórnarráði Íslands. Gott ef þar er ekki gufubað og ekkert nema gott um það að segja. En hitt hljótum við að spyrja hæstv. dómsmrh. um: Hverju sætir þessi mismunun? Þetta fer að minna á ofsóknir af hálfu þeirra sem stýra málum hjá þessari stofnun. Eða er þetta gert samkvæmt skipun ráðuneytisins og hæstv. dómsmrh.? Það er óskað eftir svörum.