Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:37:42 (643)

1998-10-22 14:37:42# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:37]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa umræðu þó að ljóst sé að við getum ekki komist til botns í henni á svo stuttum tíma sem hér er gefinn til hennar.

Það er ljóst að margir og ólíkir þættir valda þeirri byggðaröskun sem við fjöllum um. Hægt er að ráða við suma af þeim en aðra alls ekki. Það liggur fyrir að búsetuskilyrðin skipta mjög miklu máli í þessu sambandi og að þeim málum koma stjórnvöld, heimaaðilar og aðrir. Stjórnvöld geta haft veruleg áhrif og það hefur komið fram í umræðunni. Þar ber að nefna samgöngur, heilbrigðisþjónustu, menntamál, sem eru mjög ríkur þáttur, og ýmiss konar búsetukostnað.

En það sem mér finnst hins vegar geta vakið okkur bjartsýni um að eitthvað fari að gerast í aðgerðum í byggðamálum er einmitt sú staðreynd að nú eru menn almennt farnir að viðurkenna að ákveðið misvægi ríki í þjóðfélaginu milli landsbyggðar og þéttbýlis. Þar á ég við kosningalöggjöfina. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að mikilvægt sé að leiðrétta misvægi hlýtur það að fylgja í þessum málum vegna þess að mér heyrist menn vera almennt sammála um að verulegt misvægi sé ríkjandi varðandi búsetuskilyrði í þéttbýli og dreifbýli.

Íslendingar hljóta að vera moldrík þjóð ef núverandi ástand getur gengið mikið lengur. Við höfum rætt um margfalda uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og þjónustu og við vitum að með þessari þróun verður eftir sóun og vannýting fjárfestinga víða úti um landið.

Herra forseti. Stjórnvöld verða að beita þeim aðgerðum sem þau geta og hafa vald á að framkvæma. Við höfum rætt þetta mál margoft og það liggur fyrir að ýmislegt er hægt að gera. Ég tel að mjög margt gott sé í þeirri þáltill. um stefnu í byggðamálum sem hér hefur verið rædd en það er ekki nóg að samþykkja hana. Aðgerðir verða að fylgja og ég skora á menn að beita þeim.