Vernd barna og ungmenna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 15:47:15 (651)

1998-10-22 15:47:15# 123. lþ. 16.2 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[15:47]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir orð hæstv. ráðherra um orðanotkun. Málskilningur minn segir að 17 ára glímukappi, tveggja metra hár og jafnvel orðinn faðir, sé ekki barn. En fyrst Alþingi tók þessa ákvörðun, að taka sjálfræðið af 8 þúsund Íslendingum og gera þá að börnum, þá verð ég að sjálfsögðu að lúta þeirri ákvörðun og þetta frv. er afleiðing þess.

Herra forseti. Í 15. og 24. gr. er fjallað um að barni verði skipaður talsmaður. Í 24. gr. stendur, með leyfi forseta:

,,Barnaverndarnefnd ber að skipa barni talsmann til að gæta hagsmuna þess ef þörf krefur.``

Börn geta lent í þeirri óskaplegu stöðu að foreldrarnir hafa á einhvern hátt brugðist því, eru jafnvel orðnir óvinir þess og síðan kemur barnaverndarnefnd, sem er enn meiri óvinur, og ætlar að fara að gera eitthvað fyrir barnið. Þá er ekki beint traustvekjandi að sami aðilinn og ætlar að veita barninu hjálp skipi því talsmann. Ég legg til við hv. þingnefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar að því verði breytt og talsmaður verði skipaður af umboðsmanni barna, sem hefur sannað sig með góðum verkum. Umboðsmaður barna skipi barninu talsmann og að barnið verði upplýst um þennan rétt sinn. Sá talsmaður yrði ætíð skipaður og þar tek ég undir með hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur sem benti á að alltaf ætti að skipa talsmann. Þetta eru nefnilega mjög þungbær mál og erfið frá sjónarhorni barnsins. Við verðum því alltaf að bera virðingu fyrir því og skipa því talsmann.

Herra forseti. Ég kom aðallega upp til þess að ræða um kostnaðarmat fjmrn. en þar segir að kostnaðurinn muni nema allt að 90 milljónum á ársgrundvelli, þ.e. rekstrarkostnaður vegna nýrra heimila. Þegar þetta mál bar upp, að taka ætti forræðið eða sjálfræðið af 8 þúsund Íslendingum, var það einmitt rökstutt með því að sparnaður mundi nást í kerfinu. Það þyrfti ekki lengur eins sterkt vald til þess að meðhöndla þessi börn, og vissulega valda þessi ungmenni sem núna eru 17 og 18 ára geysilegum kostnaði hjá lögreglu og dómsvaldi. Sá kostnaður sparast, um það er hvergi talað.

Rætt er um að einstakir, sem betur fer mjög fáir, síbrotamenn á þessum aldri fremji tugi glæpa. Það hlýtur aldeilis að kosta í dómskerfinu, í lögregluskýrslum og öðru slíku en sá kostnaður fellur niður. Ég vildi því gjarnan sjá þessa umsögn fjmrn. endurskoðaða í því ljósi að kostnaður sparast hjá dómsmrn. og nota eigi þá peninga til þess að byggja upp þessi heimili sem að mínu mati geta orðið mjög góð til að ráða við vanda þeirra ungmenna --- eða barna --- sem eru orðin 16, 17 ára og hafa lent á villigötum.