Vernd barna og ungmenna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 16:10:08 (655)

1998-10-22 16:10:08# 123. lþ. 16.2 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[16:10]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra gat þess að ófyrirséð atvik hefðu orðið til þess að biðlistar eftir sérstökum fíkniefna- eða meðferðarúrræðum hefðu lengst. Það kom fram í umræðum um daginn í svari við fsp. frá hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur að hæstv. ráðherra taldi að það væri vegna þess að flóðbylgja fíkniefna hefði skollið yfir landið í sumar.

Síðan hefur komið fram í fjölmiðlum að til að mynda lögreglustjórinn í Reykjavík er ósammála hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra virðist því ekki hafa réttar upplýsingar í þessum efnum sem út af fyrir sig gefur tilefni til ákveðinna vangaveltna um hvort menn séu nægilega í stakk búnir til að leggja fram ráð við þessari vá.

Eigi að síður, herra forseti, fagna ég því að hæstv. ráðherra er bersýnilega að velta fyrir sér hvernig hægt væri t.d. að afla húsnæðis undir meðferðarheimili, og mér finnst það jákvætt hjá ráðherranum. Það sem mig langar til þess að spyrja um er þetta: Við það að hækka sjálfræðisaldurinn úr 16 upp í 18 ár færast augljóslega auknar skyldur á herðar ríkisins, eins og hæstv. ráðherra hefur reifað í máli sínu. Talið er að fjögur til fimm ný meðferðarheimili þurfi samkvæmt því sem kemur fram í áliti fjmrn. En hvað telur hæstv. ráðherra sjálfur að þurfi mörg slík heimili til að uppfylla þær skyldur?

Herra forseti. Í fjölmiðlum hefur komið fram, og einhver gat um það í umræðunni áðan, að samtök áhugamanna um áfengisvarnir hafa nú hafið viðbyggingu við heimili sitt að Vogi, sem á sérstaklega að verða fyrir ungt fólk sem er á þessum aldri. Mig langar því til að spyrja hæstv. ráðherra hvort gert sé ráð fyrir því að SÁÁ fái sérstakt fjárframlag af þessu tilefni. Hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því, fyrst þau eru að taka þarna ákveðinn hluta hinna auknu byrða yfir á sig, að þeim verði gert það auðveldara með sérstöku fjárframlagi.