Vernd barna og ungmenna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 16:12:23 (656)

1998-10-22 16:12:23# 123. lþ. 16.2 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[16:12]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ófyrirséð atvik, já. Það er að vísu rétt að lögreglustjórinn í Reykjavík hefur upplýst að ekki hafi meira af fíkniefnum verið gert upptækt en venjulegt er. Það er sjálfsagt rétt hjá honum. Hitt er svo annað mál að það kann að vera að eitthvað meira hafi sloppið fram hjá yfirvöldum en undanfarin ár.

Ég byggði fullyrðingu mína á því hvað miklu fleiri leita núna til Barnaverndarstofu um liðsinni vegna þess að unglingar eru komnir í fíkniefnin, ekki bara eitthvert dúll heldur jafnvel í mjög hörð fíkniefni. Einhvers staðar fá þeir þau. Í einhverju liggur þessi fjölgun.

Ég hef síðan --- og reyndar áður líka --- haft tal af mörgum sem fullyrða í mín eyru að í nánasta umhverfi þeirra fari fíkniefnaneysla ungmenna hraðvaxandi. Það getur ekki verið af öðru en því að meira sé í umferð af fíkniefnum en áður. Við að vísu verðum meira vör núna við árganginn sem er 16 ára. Hann átti ekkert athvarf hjá Barnaverndarstofu fyrr en eftir lagabreytingu, þannig að við þurfum ekki að hafa fylgst með honum. En það ber bara flestöllum saman um þetta nema lögreglustjóranum í Reykjavík, að menn geta ekki annað en dregið þá ályktun að meira sé af fíkniefnum í umferð.

Hvað SÁÁ áhrærir hefur SÁÁ ekki haft neitt samband við okkur í félmrn. varðandi byggingaráform sín og ég veit ekkert um þau nema það sem ég hef séð í fjölmiðlum. Það er framtak SÁÁ en ekki okkar.