Vernd barna og ungmenna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 16:14:49 (657)

1998-10-22 16:14:49# 123. lþ. 16.2 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[16:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Miðað við þær forsendur sem hæstv. félmrh. leggur til grundvallar mati sínu á auknu magni fíkniefna í umferð tel ég að það sé skynsamlega ályktað hjá honum að um aukningu sé að ræða. Og ég get verið sammála honum um að ýmis teikn í umhverfi manns benda til að svo sé.

[16:15]

Ég skildi hæstv. ráðherra svo að vegna þess að nú hefur hann stærri hóp í sínu mikla skjóli vegna hækkunar sjálfræðisaldursins og þar sem þetta er nýtilkomið þá hafði hann kannski ekki samanburðinn áður. En ef fullyrðing hans er rétt, sem eins og ég sagði að mér þykir skynsamlega ályktað hjá honum, þá er það umhugsunarefni fyrir okkur sem erum annað veifið að velta fyrir okkur fíkniefnavandanum að hæstv. félmrh. sem hefur í sjálfu sér enga sérþekkingu á fíkniefnum eða magni þeirra í umferð hafi að öllum líkindum komist að skynsamlegri og réttari niðurstöðu um þá vá sem við stöndum frammi fyrir heldur en þar til bær yfirvöld eins og t.d. lögreglustjórinn í Reykjavík vegna þess að mér finnst, eins og hæstv. ráðherra hefur sagt hérna, að fleiri unglingar leiti aðstoðar og fleiri foreldrar leiti aðstoðar og það bendir til þess eðlilega að meira magn sé í umferð.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að hæstv. ráðherra hafi haft rétt fyrir sér en lögregluyfirvöld hafi haft rangt fyrir sér. Því spyr ég sjálfan mig: Hvað er þetta fólk að gera sem við treystum til að þess að taka upp baráttuna fyrir okkar hönd og barna okkar gegn þessum vágesti? Kannski að hæstv. félmrh. hefði átt að sækja um í löggunni.