Sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 16:32:54 (664)

1998-10-22 16:32:54# 123. lþ. 16.3 fundur 135. mál: #A sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur# frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[16:32]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er rætt er að mínu mati býsna þýðingarmikið og löngu orðið tímabært. Það var ljóst fyrir alllöngu síðan að mikil þörf var orðin á því að skapa viðunandi lagaramma um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Hér er um að ræða starfsemi sem getur verið mjög þýðingarmikil og umsvifamikil og þess vegna sjálfsagt mál að skapa um þetta viðunandi umhverfi.

Ég vil vekja athygli á því að í þeim umræðum sem hafa farið fram um formbreytingu ríkisfyrirtækja hefur það komið fyrir allnokkrum sinnum að menn hafa velt því fyrir sér hvort hægt væri að breyta þessum ríkisfyrirtækjum í einhvers konar sjálfseignarstofnanir sem væru að fullu og öllu leyti þó undir eftirliti ríkisins, en ekkert hefur orðið af því. Það út af fyrir sig tel ég vel því að auðvitað er hlutafélagaformið eins og við þekkjum það langsamlega heppilegasta og eðlilegasta rekstrarform allrar atvinnustarfsemi.

Hins vegar er það svo að upp geta komið tilvik þar sem sjálfsagt er að atvinnureksturinn sé skipulagður með einhverju öðru formi eða sniði og þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að hafa skýr lög sem kveða á um það hvernig með skuli fara þegar fyrirtækjum er skipað í form sjálfseignarstofnana, sem við þekkjum svo sem vel á ýmsum sviðum þjóðlífsins, ekki síst t.d. á umönnunarsviði og slíkum sviðum, þar sem menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast sé að viðhafa form sjálfseignarstofnunar.

Þess vegna, virðulegi forseti, geri ég ekki athugasemdir við þetta frv. í sjálfu sér. Ég tel reyndar að það sé að langmestu leyti prýðilega unnið eftir því sem ég hef vit á og í sjálfu sér fagnaðarefni að það skuli vera komið fram.

Hins vegar finnst mér koma fram í þessu frv. sama refsigleðin gagnvart bæði stjórnendum að nokkru leyti og öðrum, sem mér finnst vera orðin allt of áberandi í lagaumhverfi okkar hvað varðar atvinnulífið. Þess vegna, virðulegi forseti, vildi ég nota tækifærið núna til þess að fara um þetta nokkrum orðum.

Það er ljóst að frv. byggist að nokkru leyti, eins og fram kom í máli hæstv. viðskrh., á lagasetningunni um hlutafélög og einkahlutafélög þar sem nákvæmlega hið sama á við. Þetta er sérlega áberandi varðandi alla okkar skattalöggjöf sem gengur miklu lengra í þessum efnum heldur en skattalöggjöfin í mörgum nágrannaríkjum okkar og er auðvitað farið að hafa verulega slæm áhrif á starfsumhverfi atvinnulífsins í heild.

Í frv. eru a.m.k. tvær greinar sem ég verð að játa, virðulegi forseti, að ég hef miklar efasemdir um og lýsi mig hreinlega á þessu stigi málsins, sérstaklega hvað aðra greinina varðar, fullkomlega ósammála. Hér á ég við í fyrsta lagi 16. gr. frv. sem mér finnst, svo ég taki nú ekki dýpra í árinni að þessu sinni, afar umhugsunarverð. Þar segir í síðustu málsgrein, með leyfi virðulegs forseta:

,,Stjórnarmaður, sem vegna langvarandi sjúkdóms eða annarra forfalla eða á annan hátt hefur sýnt sig óhæfan til að gegna starfinu, skal víkja úr stjórninni.``

Mér er ekki kunnugt um það, virðulegi forseti, að ákvæði af þessu taginu séu algeng í lagasetningu, þ.e. ef stjórnarmaður eða einhver annar er sjúkur og getur ekki um tíma gegnt starfi sínu þá er ekki svo að um það sé tekin einhver formleg ákvörðun heldur er það lagaskilyrði að hann skuli úr stjórninni. Með öðrum orðum, maður gæti staðið frammi fyrir því, til þess að sanna tilverurétt sinn í stjórn sjálfseignarstofnunar sem stundar atvinnurekstur, að þurfa að koma með læknisvottorð. Mér er t.d. ekki alveg ljóst hverjum eigi að framvísa þessu læknisvottorði. En þetta, virðulegi forseti, tel ég að hv. efh.- og viðskn., sem ég held að muni fá þetta mál til meðhöndlunar, eigi sérstaklega að skoða og kanna hvort ekki séu aðrar leiðir til ef menn vilja hafa þann möguleika að skipta út stjórnarmanni sem einhverra hluta vegna er óhæfur til að sinna starfi sínu. Þarna finnst mér sjálfum við vera komin inn á afar hættulegar brautir.

En ég hef enn þá stífari athugasemdir við annað ákvæði frv. sem mér finnst vera mjög skýrt dæmi um þá refsigleði sem ég hef kallað svo og svífur svo mikið yfir vötnunum í nútímalagasetningu hvað varðar starfsumhverfi atvinnulífsins, hvort heldur er í skattalögunum, hlutafélagalögunum og einkahlutafélagalögunum. Þar á ég við 44. gr. í XI. kafla sem ber yfirskriftina Refsingar. Og nú ætla ég að lesa, með leyfi virðulegs forseta:

,,Það varðar sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum:`` Ef maður gerir hvað?

,,b. að bera vísvitandi út rangar frásagnir eða skapa með samsvarandi hætti rangar hugmyndir um hag sjálfseignarstofnunar eða annað er hana varðar.``

Veltum aðeins fyrir okkur hvað þetta þýðir. Þetta þýðir að ef einhver, af einhverjum hvötum sem við skulum ekkert ræða sérstaklega, kysi að tala illa um einhverja stofnun, segja eitthvað misjafnt um starfsemi hennar, þá væri hægt að stinga honum í tugthúsið í tvö ár, í 24 mánuði, ef hann yrði dæmdur til ýtrustu refsingar, aðeins vegna þess að hann hefði talað öðruvísi um tiltekna sjálfseignarstofnun en mönnum líkaði vel, lygi t.d. einhverju upp á sjálfseignarstofnunina, sem út af fyrir sig er nú kannski ekki mjög góður siður. Ég held samt sem áður, virðulegi forseti, jafnvel miðað við það starfsumhverfi sem við búum atvinnulífinu eða einstaklingunum, að þarna sé nokkuð langt til seilst, 24 mánaða fangelsi fyrir það að tala illa um einhverja stofnun, ef menn beita lögunum til hins ýtrasta.

Þess vegna segi ég, virðulegi forseti, og beini því nú m.a. til hæstv. viðskrh., sem ég veit að er sanngjarn maður, og efh.- og viðskn., að menn skoði það sérstaklega hvort við ættum ekki að reyna að setja lagaumhverfið í þessu þannig að það sé ekki að kalla á refsingar langt út fyrir þau mörk sem maður getur talið að eðlileg tilefni séu til.

Virðulegi forseti. Þessi tvö atriði sem þarna skjóta upp kollinum með afskaplega leiðinlegum hætti finnst mér svona á vissan hátt dæmi um þá þróun sem hefur verið í lagasetningunni hvað varðar atvinnulífið. Þess vegna finnst mér full ástæða til þess að menn skoði þetta nánar og fari betur yfir. Það getur ekki verið vilji eins né neins að hafa ákvæði af því taginu að það varði fangelsisvist ef menn tala illa um sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Það getur bara ekki verið hugsunin. Eitthvað annað hljóta menn að hafa ætlað sér að gera þó að þarna hafi tekist svona til.

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi áðan þá er frv. er mikilvægt að öðru leyti. Það varðar atvinnustarfsemi sem oft og tíðum getur verið viðkvæm. Þess vegna er nauðsynlegt að búa þetta sem best úr garði og ég efast ekki um að vandað hefur verið til þess og heyri það af þeim mönnum sem m.a. komu að þessu að þar voru hæfir menn að störfum (Gripið fram í: Refsiglaðir.) en refsiglaðir nokkuð. Að mínu mati er því ástæða til að vanda sem best til þessarar lagasetningar og taka tillit til sjónarmiða mildi og mannúðar.