Innheimtulög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 16:45:17 (666)

1998-10-22 16:45:17# 123. lþ. 16.4 fundur 136. mál: #A innheimtulög# frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[16:45]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til innheimtulaga sem er á þskj. 136. Tilgangur þessa frv. er að setja lög um innheimtuaðgerðir, lög sem ekki hafa áður verið sett hér á landi en er velþekkt fyrirkomulag annars staðar á Norðurlöndum.

Í frv. eru sett ákvæði um samband innheimtuaðila og kröfuhafa, nánar tiltekið upplýsingaskyldu innheimtuaðila og meðferð innheimtufjár. Í öðru lagi eru einnig sett ákvæði um greiðslu innheimtukostnaðar og hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknun sem og heimild til viðskrh. til að setja reglugerð um hámark á innheimtuþóknun til þeirra aðila sem fá heimildir samkvæmt þessum lögum til að stunda slíka starfsemi.

Eins og nafnið ber með sér fjallar frv. um innheimtu skulda. Lög um þess háttar starfsemi eru ekki til hér á landi. Ýmis ákvæði aðfaralaga, laga um nauðungarsölu og fleiri laga taka að sjálfsögðu á einstaka þáttum í innheimtu vanskilakrafna en það breytir ekki því að engin almenn innheimtulög eru til í landinu. Ríkisstjórninni þykir því rétt að bæta úr því. Slík lög eru í gildi í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi og lagafrv. hefur verið samið í Danmörku.

Samkvæmt frv. munu innheimtulög skiptast í sex kafla. Ákvæði I. kafla fjalla um gildissvið og fleira. Þar kemur m.a. fram að lögin gilda með vissum undantekningum um innheimtu gjaldfallinna krafna, um greiðslu peninga og að unnt sé með samningi að víkja frá sumum ákvæðum laganna.

Í II. kafla er fjallað um skilyrði til að mega stunda innheimtustarfsemi, m.a. innheimtuleyfi. Í III. kafla er að finna ákvæði um samband innheimtuaðila, t.d. kröfuhafa og skuldara, m.a. um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvaranir.

Í IV. kafla er fjallað um ákvæði og það samband sem er og þarf að vera milli innheimtuaðila og kröfuhafa, nánar tiltekið upplýsingaskyldu innheimtuaðila, og meðferð innheimtufjárins. Í V. kafla eru ákvæði um greiðslu innheimtukostnaðar og hámarksfjárhæð hans, m.a. þóknunar, og hægt að ákveða með reglugerð, eins og áður var getið, hver hámarksþóknun skuli vera.

Í VI. kafla eru ýmis ákvæði m.a. um starfsábyrgðartryggingar, eftirlit með framkvæmd laganna, leyfissviptingu, refsingar og almenna reglugerðarheimild.

Eins og segir í athugasemdum með frv. er markmið þess að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. ákvæði um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun og innheimtuleyfi og sviptingu þess. Þá er mælt fyrir um heimildir handa ráðherra að gefa út reglugerð þar sem kveðið verður á um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar sem heimilt verður að krefja skuldara um.

En frv. er ekki einungis ætlað að tryggja hagsmuni skuldara. Verði það að lögum mun staða kröfuhafa einnig batna. Þannig er mælt fyrir um vörslufjárreikning innheimtuaðila og starfsábyrgðartryggingar allt að 16,5 millj. kr. sem innheimtuaðilar verða að hafa. Starfsábyrgðartryggingin getur þó einnig orðið skuldurum til hagsbóta sem órétti eru beittir og hafa eignast bótakröfu á hendur innheimtuaðilanum.

Einhverjum kann að þykja að það skjóti skökku við að setja í lög heimild til handa ráðherra til að ákveða verð fyrir tiltekna þjónustu nú þegar verið er að leitast við að efla samkeppni á sem flestum sviðum. Því er til að svara að samkeppni kemst ekki að þegar um innheimtuþóknun er að ræða, a.m.k. ekki nema að mjög takmörkuðu leyti. Ræðst það af því að skuldarinn sem borgar innheimtuþóknunina velur ekki innheimtuaðilann. Það gerir að sjálfsögðu kröfuhafinn. Þar sem kröfuhafinn greiðir ekki kostnaðinn við innheimtuna hefur hann takmarkaðra hagsmuna að gæta að því er varðar upphæð innheimtuþóknunar.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns taka þessi ákvæði réttarfarslaga til innheimtu skulda og skipa réttindum og skyldum skuldara og kröfuhafa. Auk þess hefur Lögmannafélag Íslands, samkvæmt heimild í lögum um málflytjendur, úrskurðarvald um þóknanir fyrir lögmannsstörf, þar með talið innheimtuþóknanir. Því þótti eðlilegt að binda gildissvið þessa frv. við innheimtuaðgerðir á frumstigi, þ.e. frá því að skuld kemst í eindaga þar til byrjaðar eru innheimtuaðgerðir á grundvelli réttarfarslaga, þ.e. stefnt er fyrir kröfunni eða aðfarar eða uppboðs er beiðst á grundvelli þar til nauðsynlegra heimilda.

Með frv. þessu er því ætlunin að brúa bil, bilið frá því skuld kemst í eindaga og þar til innheimtuaðgerðir með atbeina yfirvalda eru hafnar. Ekki er stefnt að því með innheimtulögum að koma í veg fyrir eðlilega gjaldtöku vegna innheimtuaðgerða á frumstigi, lágt gjald, sem á tímum samkeppni er óvíst að mun fleiri tækju upp en nú tíðkast, hvað þá allir, heldur óeðlilegum kostnaði sem getur og er í ýmsum tilvikum tilfinnanlegur.

Því er við þetta að bæta að markmið frv. er ekki einungis að veita ráðherra heimild til að ákveða með reglugerð hámark innheimtuþóknunar, og stemma þannig stigu við óeðlilegum innheimtukostnaði, heldur er markmið frv. ekki hvað síst að skipa réttindum og skyldum skuldara og kröfuhafa að öðru leyti og er þar um að ræða mjög þýðingarmikil atriði eins og drepið hefur verið á hér að framan.

Það er því álit mitt að hér sé um mikilvægt mál að ræða. Verði frv. þetta að lögum er víst að það mun stuðla að myndun góðra innheimtuhátta, skýra réttarstöðu allra þeirra aðila sem að innheimtum koma, og á eftir að firra bæði skuldara og kröfueigendur tjóni í framtíðinni.

Herra forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frv. verði vísað til hv. efh.- og viðskn.