Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 17:51:51 (670)

1998-10-22 17:51:51# 123. lþ. 16.5 fundur 121. mál: #A lífsýnasöfn# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[17:51]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Eignarrétturinn og eignarhald á sjúkraskrám og lífsýnum hefur komið til umræðu. Það er eðlilegt. Um þetta er deilt og sumir telja að meginás umræðunnar um þetta frv. og um frv. um miðlægan gagnagrunn kunni að snúast um það.

Mig langaði aðeins til að gera grein fyrir hugsunum mínum á þessu sviði gagnvart lífsýnunum. Ég tel að það sé auðveldara fyrir þann sem lætur af hendi lífsýni að gera óskorað eignarréttartilkall til þess heldur en til sjúkraskrár í hefðbundnum skilningi. Ástæðan er sú að sjúkraskráin, sem er færð af lækni, hefur að geyma a.m.k. tvenns konar upplýsingar. Annars vegar eru það upplýsingar sem sjúklingurinn hefur miðlað um sjálfan sig og einkenni sín. Hins vegar er það greining sem læknirinn sjálfur ritar í krafti reynslu sinnar og menntunar. Með vissum hætti má því segja að hann leggi nokkuð til sjúkraskrárinnar.

Því er ekki til að dreifa þegar lífsýnið eitt og sér er annars vegar. Framlag læknisins til þess er ekkert. Það er að öllu leyti framlag sjúklingsins. Það er því auðveldara að halda fram óskoruðum eignarrétti sjúklings yfir einhverju sem var hluti af honum sjálfum en sjúkraskránni eins og við höfum haft það hugtak fyrir okkur í hefðbundnum skilningi.